Spurt og svarað

01. desember 2005

Endurteknar brjóstastíflur

Sæl!

Ég er búin að vera með son minn í rúma fjóra mánuði á brjósti. Brjóstagjöfin hjá okkur byrjaði brösuglega, fékk sár á vinstri geirvörtu og sýkingu í það sem endaði á sýkingu í brjóstinu. Ég fékk aðstoð við að nudda stífluna úr sem myndaðist við sýkinguna og smyrsli sem drap niður bakteríurnar. Það ásamt háum hita virðist hafa unnið á þessu án þess að þurfa sýklalyf. Ég fékk hjálp við að koma honum rétt á út frá þessum erfiðleikum og tel að nú taki hann vörtuna rétt og vel, miðað við lengd gjafa og þyngdaraukningu. Hins vegar hef ég verið að fá stíflur í bæði brjóstin reglulega. Það sem ég tel vera stíflur eru aumir blettir og hnútar á brjóstunum. Stundum myndast vel stórar harðar hellur á brjóstinu og litlir hnútar þar á meðal. Erfitt að koma þessu skiljanlega í orð. Sonur minn drekkur á 2-3 klst. fresti og er í u.þ.b 13-15 mínútur á hvoru brjósti. Það líður aldrei lengri tími en 4 klst. á milli gjafa, en hann sefur s.s. stundum lengur en 3 tíma samfleytt að næturlagi. Ég hef ekki verið að mjólka mig, né eiga við framleiðsluna að öðru leyti. Ég nudda hnútana úr og tekur það mig stundum 1-3 daga að ná hverri stíflu almennilega úr brjóstinu. Ég fæ stundum hita og vanlíðan en þó ekki alltaf. Þetta gerir þó það að verkum að brjóstagjöfin er ekki eins ánægjuleg á stundum eins og hún gæti verið. Ég fæ að meðaltali hnúta í brjóstið einu sinni á viku og er þetta því orðið svolítið eins og sagan endalausa. Ég ætla að vera með son minn á brjósti helst í að minnsta kosti hálft ár í viðbót og væri því gott að fá hjá þér ráðleggingar.

Kveðja, ein stífluð.

....................................................

Sæl og blessuð stífluð.

Það sem þú þarft fyrst og fremst að einbeita þér að eru ráð sem koma í veg fyrir að stílfur myndist. Þú ert líklega orðin mjög örugg í meðferðinni við stíflum og að grípa snemma inn í svo ég ætla ekkert að fara í það. En það eru atriði sem eru sérstaklega hugsuð til að koma í veg fyrir að stíflur myndist. Eitt af því eru nokkuð reglulegar góðar gjafir (virðist í lagi hjá þér). Annað er breytilegar gjafastellingar (skipta um í annað eða þriðja hvert skipti). Þriðja er að fara yfir allt sem hugsanlega gæti þrengt að brjóstunum eða truflað eða hægt á rennsli gegnum þau. Þröng föt, brjóstahaldara eða toppi kippt uppfyrir brjóstið í gjöf (eða niðurfyrir), axlaólar eða snúrur sem þrengja að. Stelling sem býður upp á tregt rennsli í hlið brjóstsins (legið utan í einhverju). Haldið við brjóstið í gjöf eða ýtt í það á einhvern hátt.

Þetta er svona það algengasta sem mér dettur í hug en kannski dettur þér eitthvað í hug þegar þú sérð hvað ég er að spá í. Að lokum ætla ég að segja þér frá einu ráði sem ég hef heyrt að hjálpi sumum en það er að taka inn bætiefni sem heitir Lesitín. Þetta fæst í heilsubúðum og kjörbúðum. Það eru tekin 1200 mg x 4 á dag.

Vona að þetta hjálpi þér eitthvað.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. desember 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.