Endurteknar stíflur og bólgur

17.12.2006

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég á 3 mánaða strák og hef undanfarið verið að fá einhvers konar bólgu/stíflu í hægra brjóstið að neðanverðu.  Þetta lýsir sér eins og ég sé með stálma í neðri hluta brjóstsins.  Svæðið er hart eins og að steinn sé inni í brjóstinu og ég er mjög aum.  Get ekki einu sinni sofið á þeirri hlið sem auma brjóstið er.  Síðustu 2 skipti hef ég farið í heita sturtu, nuddað brjóstið og lagt heita bakstra á svæðið fyrir gjöf.  Síðan hef ég kælt brjóstið af og til inn á milli með kæligeli.  Þetta hefur virkað og stundum hefur það tekið mig 1-2 sólarhringa að ná stíflunni burt.  Ég legg drenginn oft á auma brjóstið og síðan er allt í einu eins og hann losi um stífluna og ég lagast.  Núna er þetta að koma fyrir mig í 3ja skiptið á stuttum tíma (stíflan myndast alltaf á sama stað) og ég er að velta því fyrir mér af hverju þetta stafi eiginlega?  Ég fæ ekki hita með þessu og ég passa brjóstin mín mjög vel m.t.t. kulda og geng ekki í þröngum gjafabrjóstahaldara.  Mér finnst þetta mjög hvimleitt og langar að vita hvort þið hafið einhver góð ráð handa mér þar sem þetta virðist vera síendurtekið hjá mér.

Að lokum langar mig að spyrja ykkur að því hvort maður megi snúa sér til brjóstagjafaráðgjafanna á Landspítalanum?  Ég veit að maður hefur allavega aðgang að þeim fyrstu 6 vikurnar eftir fæðingu.  Mér finnst ég ekki fá fullnægjandi og stundum misvísandi svör á minni heilsugæslu.

Bestu kveðjur, Guðrún.


Sæl og blessuð Guðrún.

Það er mjög hvimleitt að vera endurtekið að fá svona óþægindi í brjóst. Þu virðist nú kunna ýmis góð ráð sem að ættu að nýtast þér áfram. Mín reynsla er að oft má finna skýringu í stellingum við brjóstagjöfina. Ekki endilega stellingunni sjálfri heldur hvernig maður situr eða liggur. Hvernig maður hallar sér, upp við hvað maður er (stólarm, borð), hvort púðar eru of þykkir eða að maður lyftir of mikið undir brjóstið þannig að það myndist „brot“ í því. Ég ráðlegg þér að fara yfir öll svona atriði. Það getur líka hjálpað að gefa meira liggjandi og líka að liggja og gefa efra brjóstið. Einu sinni á dag gæti líka verið gott fyrir þig að gefa á fjórum fótum yfir barninu. Nú svo er það þetta ráð að taka inn 1.200 mg, fjórum sinnum á dag af Lesitíni sem virðist gagnast sumum til að koma í veg fyrir endurteknar stíflur.  

Varðandi aðgang að brjóstagjafráðgjöfum Landspítalans þá hefur þú jafnan aðgang og aðrar. Eftir fyrstu 6 vikurnar þarf a borga göngudeildargjald en það er hægt að hringja og fá ráðgjöf gegnum síma. Stundum er konum með eldri börn vísað til heilsugæslu en stundum á Landspítala.

Vona að ráðin gagnist.        

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. desember 2006.