Spurt og svarað

25. nóvember 2006

Endurteknir hnútar og bólgur í brjóstum

Hæ, hæ!

Takk fyrir góðan vef. Það er ótrúlega þægilegt að geta leitað hingað. Ég er að fara að eiga mitt 4 barn en þegar ég gekk með fyrstu tvö börnin mín þá var þessi vefur ekki til og ég get alveg fullyrt það að hann hefur hjálpað mér mikið á 3. og 4. meðgöngu. Mikið hefði ég viljað geta leitað hingað líka á 1. og 2. meðgöngu, en nóg um það.

Þannig er að ég hef alltaf fengið hrikalega hnúta og stíflur í brjóstin nokkrum dögum eftir fæðingu og mjólkurframleiðslan hjá mér virðist lengi að ná jafnvægi þannig að ég er með bólgur, hita og óþægindi í nokkrar vikur á eftir. Hitinn fer og kemur eftir því hvernig ástandið er. Ég hef nú prófað ýmislegt síðustu 3 skipti, t.d gjafastellingar, gefa oft, tæma brjóstin í samráði við brjóstaráðgjafa, nudda hnúta, liggja fyrir, passað að þrengja ekki að, passa kulda og fara í heita sturtu og fleira en samt sem áður lendi ég í þessu veseni sem vissulega dregur aðeins úr ánægjunni og gleðinni sem fylgir því að vera með barn á brjósti. Því bæði er þetta sárt og svo er ég bara hreinlega veik og get lítið notið þess að vera með krílið þegar verst er. Ég framleiði mikla mjólk og mér finnst ég alltaf vera stútfull af mjólk og svo virðist sem líkami minn sé lengi að aðlaga framleiðsluna að þörfum barnsins. Ég hef alltaf gefið annað brjóstið í gjöf og það hefur nægt út allt gjafatímabilið sem hefur alltaf verið um 9 mánuðir. Þegar barn nr 3 fæddist setti ég það strax á brjóst og gerði það mjög ört, var sagt að það gæti hjálpað, en allt kom fyrir ekki. (mjólkin kemur mjög fljótt hjá mér) Er eitthvað sem ég get gert til að koma í veg fyrir þetta í 4. sinn? Eða er þetta bara eitthvað sem fylgir sumum konum án þess að hægt sé að koma í veg fyrir þessi ónot.

Takk fyrir Bylgja


Sæl og blessuð Bylgja.

Það sem þú ert að lýsa minnir mest á offramleiðslu mjólkur. Það er þá væntanlega farið að leka í stríðum straumum fyrir fæðinguna. Það er skynsamlegt hjá þér að fá ráðin fyrirfram því það er gott að vera í startholunum með svona vandamál. Fyrsta ráðið sem þú fékkst síðast var gott. Leggðu barnið fljótt á brjóst og alveg eftir þörfum fyrstu 2 dagana. Eitt brjóst í gjöf ef það nægir annars bæði. Þegar þroti fer að gera vart við sig læturðu brjóstin sem mest í friði. Hefur góðan brjóstahaldara eða topp um þau. Leggur á eitt brjóst í einu ef þú getur, bæði ef þú ert mjög þanin. Settu svo kalda bakstra á brjóstin eftir gjafir. Þeir mega vera mjög kaldir (ís) og vera í 15-20 mín.
Þetta ætti að koma þér yfir stálmatímann. Þá er orðið mikilvægast að stoppa allan mjólkurleka. Það getur verið svolítil vinna í 2-3 daga. Þú getur bæði notað dyrabjölluaðferðina eða að klípa vörtutoppinn saman. Nú leggurðu bara á eitt brjóst í einu og aftur sama brjóst í næstu gjöf. Svo gefurðu næstu 2 gjafir af hinu brjóstinu o.s.frv. Sjáðu nú til í 3 daga hvort jafnvægi er náð. Ef ekki ferðu í að gefa sama brjóstið í 3 gjafir í röð eða jafnvel 4 í 2-3 daga. Þá ætti þetta að vera komið ef það er ekki komið fyrr. Ráðin sem þú fékkst síðast voru ýmist góð eða slæm en þau geta hafa hentað á mismunandi tímum. Núna finnst mér skipta mestu að koma í veg fyrir vandamálið strax í upphafi. Ef allt gengur vel ættirðu að vera komin yfir þetta á innan við 10 dögum.  Það er stundum ráðlagt að taka inn Lesitín til að fyrirbyggja stíflur. Þér er óhætt að byrja á því nokkrum dögum eftir fæðingu. Það sakar allavega ekki. Þá tekurðu 1200 mg. x 4 á dag.

Vona að þetta hjálpi og vona að þér gangi allt í haginn.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. nóvember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.