Spurt og svarað

21. september 2004

Engar breytingar á brjóstum

Mig langar til að spyrja um brjóstagjöf. Á síðustu meðgöngu varð ég ekki vör við neinar breytingar á brjóstunum þ.e. þetta sem flestar tala um, spennu, stækkun, dekkri vörtur o.s.frv. Eftir fæðinguna (sem var reyndar keisari) náði ég aldrei upp neinni brjóstamjólk og eftir miklar og strangar mjaltir náði ég mest 10 ml úr báðum samtals með mjaltavél þá.

Nú er ég ófrísk í annað sinn og hef engar breytingar fundið á brjóstum mínum, þau hafa ekki stækkað eða ég fengið spennu eða neitt. Mig langar að spyrja hvort þetta gæti tengst á einhvern hátt, hvort að sumar konur einfaldlega séu ekki með brjóstagjafarbrjóst? Jafnvel bara gölluð eintök?

Með von um góð svör og þakka um leið fyrir góðan og fræðandi vef,

Brjóstakonan.

.......................................................................

Sæl og blessuð brjóstakona.

Varðandi breytingu á brjóstum á meðgöngu þá nefnir þú reyndar ekki algengustu einkennin sem eru brjóstaeymsli, fjölgun eða stækkun kirtlanna á vörtubaug og leki úr brjóstum. En ef við gefum okkur að alls engin einkenni hafi verið eða séu núna þá er það jú oft þannig án þess að það breyti nokkuð um brjóstagjöfina.

Það er í raun ekki gott að segja til um hvað hefur farið úrskeiðis eftir fæðinguna síðast. Það hefur þó verið eitthvað. Þú hefur þurft að fara í keisaraskurð af einhverri ástæðu. Börn þurfa að fá að taka brjóst sem fyrst eftir keisaraskurð eins og aðrar fæðingar a.m.k. innan 6 klst. Af einhverjum ástæðum nefnir þú ekki að barn hafi neitt sogið brjóst. Það getur verið erfitt fyrir konur (og ómögulegt fyrir sumar) að setja mjólkurframleiðslu af stað ef hina náttúrulegu örvun vantar þ.e. að barn sjúgi brjóstið beint. Það eru fleiri atriði sem geta skipt máli svo sem röng notkun mjaltavélar, mikil blæðing tengd fæðingunni o.fl. Þú nefnir fremur fjarstæðukennda möguleika eins og að sumar konur séu ekki með brjóstagjafabrjóst eða gölluð eintök. Það er jú örsmár möguleiki, en af hverju að láta sér fyrst detta það í hug frekar en hin 25 atriðin sem eru miklu líklegri til að vera orsakavaldur og hægt er að leiðrétta fyrir næstu brjóstagjöf. En ef við veltum fyrir okkur þessum örsmáu möguleikum þá eru það helst miklar og alvarlegar hormónatruflanir sem hafa þá í flestum tilfellum verið frá táningsaldri. Þær valda oftast því að konur séu í miklum erfiðleikum með að verða ófrískar yfirhöfuð. Þú ert ófrísk að öðru barni svo mér finnst sá möguleiki útstrikaður. Svo er það vanþroski á brjóstvef sem er afar sjaldgæfur og tengist oftast líka hormónatruflunum. Það vantar brjóstin eða annað brjóstið eða þau þroskuðust ekkert á gelgjuskeiðinu. Mér finnst þetta líka ótrúlegt þar sem þú talar um brjóst sem ekki stækkuðu. Þannig að ég mæli með því að þú setjist niður með einhverjum sem hefur gott vit á brjóstagjafavandamálum og farir yfir hugsanlegar orsakir og þó aðallega hvernig á taka á málunum áður en kemur að næstu fæðingu og næstu brjóstagjöf.

Vona að þú flokkir þetta undir góð svör.

Kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. september 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.