Spurt og svarað

30. ágúst 2007

Engir stálmar

Hæ, hæ. Takk fyrir frábæran vef :)

Mig langar að spyrja ykkur að einu þannig er það að ég er með 2 vikna gamalt barn á brjósti og hef ekki fengið stálma og það eru allir svo hissa á því að ég sé ekki búin að fá svoleiðis en ég er samt að mjólka vel er óeðlilegt að fá ekki stálma? Og eitt enn: Hvenær á naflastúfurinn að vera dottin af?

Takk, takk.


Sæl og blessuð.

Málið er að þú ert búin að fá stálma. Þú tókst bara ekki eftir því. Stálmi er orð yfir breytingarnar sem verða á brjóstunum þegar broddur er að breytast yfir í fullþroskaða mjólk. Þetta gerist á 2-5 degi eftir fæðingu. Ef allt gengur vel og barnið fær óheftan aðgang að brjóstunum finna konur yfirleitt ekki fyrir þessum breytingum. Sumar fá smá tilfinningu fyllingar í brjóstunum og þau verða örlítið aum. Ef konur finna verulega mikið fyrir stálmanum er það oftast merki um að brjóstagjöfin gangi ekki nógu vel í byrjun og eitthvað þurfi að gera til að laga hana. Eldri konur hafa oft slæmar minningar um stálma, en það er frá þeim tíma sem börn höfðu ekki óheftan aðgang að mæðrum sínum og brjóstagjöfin fór gjarnan eitthvað úr skorðum á fyrstu dögunum. Þannig að svarið við spurningunni er í sjálfu sér: Nei,það er óeðlilegt að fá stálma sem mikið finnst fyrir.  

Svarið við seinni spurningunni er að naflastúfurinn dettur yfirleitt á fyrstu vikunni. Sumir hanga upp í 10 daga. Það er ekkert mál að snúa í sundur naflastúf sem hangir á litlum „þræði“ og betra að losna við þá fyrr en seinna.

Vona að þetta séu svör sem hjálpi.     

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. ágúst 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.