Ennþá mjólk í brjóstum 5 mánuðum eftir brjóstagjöf

16.01.2008

Komið þið sælar og takk fyrir góðan vef.

Nú er ég að fara að stefna í barn númer tvö, hætti á pillunni í nóvember og er búin að fara einu sinni á túr.  Málið er að ég á eina 16 mánaða fyrir sem hætti á brjósti þegar hún var 11 mánaða, þrátt fyrir að það séu 5 mánuðir síðan að hún hætti á brjósti þá kemur ennþá mjólkurlitur vökvi úr brjóstunum ef ég kreisti geirvörturnar. Getur þetta haft áhrif á frjósemina hjá mér? Getur verið að prólactínið hjá mér sé ennþá of hátt? Þarf eitthvað að athuga þetta áður en við höldum áfram í barneignarferlinu? Þetta er kannski óþarfa stress hjá mér þar sem við erum nú bara búin að reyna í einn mánuð og sú fyrri kom undir án vandkvæða. En einmitt þess vegna er gott að hafa svona opinn spurningavef :)

Með kveðju, ég.


Sæl og blessuð!

Það er alveg rétt hjá þér að þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu. Þú átt að hætta að reyna að kreista úr brjóstunum á þér því annars ertu alltaf að viðhalda þessari dropaframleiðslu. En frjósemin er ekkert trufluð vegna þessa.

Ég segi bara gangi þér vel.

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
16. janúar 2007.