Spurt og svarað

06. maí 2007

Er 17 mánaða en ekki tilbúinn að hætta ?dúddinu? sínu

Sælar! Takk fyrir góða síðu.

Ég á dreng sem er 17 mánaða. Ég er með hann ennþá á brjósti og það ansi mikið. Hann vill fá að „dúda“ eins og hann segir, á morgnana, þegar hann kemur heim af leikskólanum og á kvöldin. Ég er hætt að gefa honum á nóttinni, enda var það orðið mjög erfitt, hann vaknaði stundum svo oft sem 7 sinnum á nóttunni. Mín vandræði eru þau að hann stjórnar gjörsamlega öllu í sambandi við gjafirnar. Ef hann er búin að ákveða að hann vill fá að súpa en ég er að gera eitthvað annað, þá tryllist hann og ekki er hægt að hugga hann, nú nema með því að gefa honum það sem hann vill. Stundum hefur hann viljað fá að súpa þegar ég kem að ná í hann á leikskólanum, en ég hef ekki löngun til að setjast niður á leikskólanum og gefa honum þar. Þá grætur hann alla leið heim. Mér finnst svo erfitt að ég geti ekki sjálf ráðið því hvenær hann fær að súpa. Best er ef ég er ekki heima, þá er hann hinn ljúfasti. En mig langar að sjálfsögðu að geta verið með honum og leikið án þess að það sé alltaf „dúda, dúda, dúda“. Það eru allir að segja mér að baa hætta með hann á brjósti. Það finnst flestum mjög óeðlilegt að hafa svona gamalt barn á brjósti, en þó að þetta sé erfitt á daginn þá finnst mér þetta gefa okkur ótrulega mikla nánd og mikið öryggi fyrir hann. Mér finnst einmitt þessi hegðun hjá honum sýna að hann sé alls ekki tilbúin að hætta „dúddinu“ sínu. Eru þið með einhver ráð til að ég nái aftur stjórn á þessu?

 


 


Sæl og blessuð.

Það er alltaf erfitt að ráðleggja varðandi svona mál því lausnin verður að passa bara fyrir ykkur sem einstaklinga. Þetta er nokkuð sem þú finnur best sjálf. Þér er alveg óhætt að treysta eigin tilfinningu og að taka eigin ákvörðun um lausn á málinu án tillits til nokkurra nema þín og barnsins. Þetta er ykkar einkamál. Reyndu að setja þig í spor barnsins. Ef þú værir búin að hlakka til að hitta ástina þína allan daginn og þegar loksins kæmi að því væri hann afundinn og frábitinn þér. Að líkindum væri það eins og fá kalda krumlu um hjartað og kökk í hálsinn. Fólk bregst mismunandi við þeim aðstæðum en lítið barn fer bara að gráta og/eða láta illa. Það hættir því ekki fyrr enn faðmurinn er opnaður aftur og það telur sig vera tekið í sátt. Það eru hins vegar líka til börn sem fara að „stjórna“ mæðrum sínum með ósanngjörnum eða óeðlilegum kröfum ef að þau finna að alltaf er gefið eftir og mikil linkind ríkjandi. Það eru alltaf mun eldri börn eða nokkurra ára og þau eru farin að hugsa á allt annan hátt Í mínum eyrum hljómar þetta sem barn sem er ekki tilbúið að  hætta á brjósti. Þá á það samkvæmt minni tilfinningu að vera áfram á brjósti þar til það missir áhugann eða eitthvað annað fangar áhugann meira. Á móti verður að koma að þú hafir áhuga á að halda brjóstagjöfinni áfram án þess að það sé kvöð.

Það sem ég veit að er erfitt eru utanaðkomandi aðstæður. Við búum í þjóðfélagi sem hefur lítinn skilning á brjóstagjöf „eldri“ barna og dæmir hana oft óþarfa og jafnvel ógeðslega. Þetta er þó besta byrjun lífs sem til er í heiminum og skapar frábæra einstaklinga. Þannig er trúlegt að þú verðir fyrir aðdróttunum og aðkasti bæði frá fjölskyldu,vinum og jafnvel ókunnugu fólki. Þér getur líka verið gert erfitt fyrir að gefa barninu þínu hvar sem ykkur hentar.  Þannig að þegar allt kemur til alls þá er þetta þín ákvörðun. Sestu niður og farðu yfir allt málið. Hvað viltu? Hvað telurðu vera best fyrir barnið? Hvað hentar ykkur best? Hvernig viltu fara að því að framkvæma það sem þú ákveður? Hverju viltu breyta?

Vona að þetta hafi ekki ruglað þig meira.     

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. maí 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.