Spurt og svarað

29. október 2006

Er að gefast upp á brjóstagjöfinni

Sælar og takk fyrir mjög góðan vef - hann hefur sko komið mér að gagni!

Nú á ég alveg yndislega 3ja vikna stúlku en vandamálið er bara það að eftir að hún kom í heiminn þá hef ég varla komist út úr herberginu mínu því það hefur ekki verið að taka því að klæða sig yfir daginn. Hún vill sífellt liggja við brjóstið! Nú var mjög erfitt að koma brjóstagjöfinni af stað. Hún vó við fæðingu 3.675 gr og þrem dögum seinna hafði þyngdin hennar hrapað niður í 3.225 gr. Hún var mjólkurvigtuð á þriðja degi og þá fékk hún ekki nema 10 mg í þeirri gjöf. Ég tók til þess ráðs að leigja mér mjaltavél til að hjálpa mér að ná mjólkinni upp og mjólkaði í hana í nokkur skipti. Hún var svo vigtuð aftur 12 daga gömul og var þá orðin 3.650 gr, viku seinna (19 daga gömul) þá vó hún 3.790 gr. Það var sem sagt 140 gr þyngdaraukning í þeirri viku sem mér skilst að sé algjört lágmark. Það ergir mig mest er að hún liggur öllum sínum vökustundum við brjóstið og sýgur og sýgur. Seinnipart dags finnst mér mjólkin bara vera alveg hætt að flæða, hef reynt að kreista vörtuna og fæ ekkert úr henni, finn það líka á henni að hún kyngir engu heldur sýgur vörturnar þar til ég er orðin rauð og sjóðandi heit. Mér finnst sem sagt brjóstagjöfin ekki vera að ganga upp - er með vanvirkan skjaldkirtil, getur það spilað inní mjólkurflæðið? Ljósmóðirin sem sinnti mér síðast í heimaþjónustunni spáði því að þetta ætti allt að vera orðið eðlilegt eftir viku, ég er bara alveg að missa vonina. Getur enn allt batnað þótt ég hafi reynt og reynt í 3 vikur? Eða á ég bara að fara að gefa henni þurrmjólk með?

Vona að þið getið leiðbeint mér sem fyrst, ég er alveg að klepra á þessu.

Með fyrirfram þökk.Sæl og blessuð.

Þetta virðist hafa farið illa af stað hjá þér en ætti alveg að vera hægt að laga. Eftir að þú leigir vélina virðist þyngdaraukningin komast á góðan skrið. 140 gr. þyngdaraukning á viku er ekki lágmark heldur 110 gr. Að hún skuli liggja svona stöðugt á brjósti bendir eindregið til að hún sé ekki með rétt grip á vörtunni og það þarftu að láta laga strax. Þá nærðu 3 atriðum í einu. Gjafirnar styttast, barnið þyngist vel og mjólkin eykst. Já, vanvirkur skjaldkirtill getur spilað inn í. Það verður oft breyting á skjaldkirtilshormónunum við fæðinguna. Þú þarft að fá mælingu og kannski breyta lyfjunum. Það getur skipt miklu máli. Já, það getur allt batnað þótt þú sért búin að reyna svo lengi. Þú hefur kannski ekki verið að reyna réttu hlutina. Endilega reyndu að þrauka þessa nokkra daga sem tekur að kippa þessu í lag.

Hughreystandi kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. október 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.