Spurt og svarað

08. maí 2006

Er að venja af brjósti...

Sælar og takk fyrir góðan vef.

Ég á dóttur sem er fjögurra og hálfs mánaða og er að byrja að venja hana af brjóstinu. Ég byrja að vinna 1. júní frá 8-4 og hef ekki möguleika á að koma heim á milli eða að mjólka mig í vinnunni svo ég hef hugsað mér að venja hana af því að drekka af brjóstunum á þessum tíma, en mig langar að geta haldið áfram að gefa henni á morgnanna áður en ég fer og svo þegar ég kem heim og á kvöldin. Er þetta raunhæfur möguleiki? Ég vinn í tvo mánuði og fer þá í 6 vikna sumarfrí sem ég myndi þá nota til að venja hana alveg af. Svo byrjar hún hjá dagmömmu í september, þá 9 mánaða gömul. Ég hef lesið um rólega afvenjun og er byrjuð að taka út eina gjöf. Venjulega drekkur hún tvisvar áður en hún fær sér lúr. Þegar hún vaknar og svo áður en hún fer út í vagninn um morguninn, svo endurtekur sama ferli sig í hádeginu og hún fer aftur í vagninn um tvö leytið. Það er mikil rútína hjá okkur. Ég hef hugsað mér að taka út eina gjöf á u.þ.b. 4 daga fresti þar til hún er hætt að fá brjóst alveg frá 8 á morgnanna til u.þ.b. 5 á daginn.

Málið er að hún vaknar yfirleitt ekki fyrr en á milli 7 og 8 og er ekki vön því að tæma bæði brjóstin í einu. Því er ég að hugsa hvort ég verði ekki bara að mjólka úr báðum brjóstunum milli 6 og 7 á morgnanna áður en ég fer í vinnu og pabbi hennar sem verður heima þegar ég fer að vinna gefur henni það. Ég á töluverðar birgðir í frystinum af mjólk en ég held samt að hún eigi eftir að þurfa fá þurrmjólk eftir mánuð eða svo, og svo bara stoðmjólk eftir að hún nær 6 mánaða aldri.

Mig langar bara að fá „feedback“ á þetta plan mitt. Er þetta ekki alveg mögulegt eða er algengt að lenda í vandræðum. Það er bara annar dagurinn í dag sem ég sleppi fyrstu gjöfinni en mig kvíðir svolítið fyrir verkjunum sem ég á eftir að hafa í brjóstunum næsta mánuðinn við þetta ferli, og mig kvíðir líka því svolítið að byrja að vinna og eiga kannski eftir að finna mikið til og vera jafnvel með mjólkurleka fyrstu vikurnar. Þannig að öll góð ráð væru mjög vel þegin.

Með þökkum, Lilla.


Sælar!

Þetta er mjög gott plan hjá þér. Ég held að það sé betra að láta líða lengra en 4 daga á milli þess sem þú tekur út eina gjöf þá verður aðlögunin auðveldari - það er erfitt að segja hversu langt á milli en margar mömmur láta líða 10 til 14 daga á milli. Það er ekki vaninn að það komi verkir í brjóstin þó svo mæður séu að venja af brjósti - nema ef þær gera þetta of hratt - svo þú skalt ekki hafa áhyggjur af því, einnig með mjólkurleka - það er ekki algengt að það komi á þessum tíma. Þú þarft trúlega að mjalta úr brjóstunum áður en þú ferð í vinnuna ef hún nær ekki að gera það litla daman. Ég þekki margar mömmur sem fara að vinna í rúma 8 klukkustundir á dag með barn á brjósti og hef reynslu af því sjálf og þetta gengur oftast mjög vel og aðlagast fljótt. Það er svo merkilegt með þessi brjóst þau aðlagst  eftirspurn og framboði - það er hægt að stilla þau inn í alls konar rútínur.

Ég vona að þér gangi vel.

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. maí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.