Er brjóstamjólkin glundur við eins árs aldur?

25.08.2008

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef.

Sonur minn er eins árs og ég er enn með hann á brjósti. Tengdamamma mín sagði við mig um daginn að ég ætti bara að hætta því, því mjólkin væri hvort eð er bara orðin eitthvað glundur núna, svo gott sem næringarlaus. Er eitthvað til í þessu?

Kærar þakkir fyrir svarið.


Sæl og blessuð.

Nei, það er ekki rétt að brjóstamjólkin verði að einhverju „glundri“ og maður ætti ekki að láta sér detta í hug að kalla hana svo ljótu nafni. Brjóstamjólkin er alltaf fullkomin næring handa barninu alveg sama á hvaða aldri það er. Samsetning hennar er orðin töluvert breytt frá því í byrjun brjóstagjafarinnar enda eru næringarþarfir 1 árs barns aðrar en nýfædds en hún hentar því algjörlega. Brjóstamjólkin er alltaf það allra hollasta sem barnið þitt innbyrðir á hverjum degi.

Bestu óskir um farsæla brjóstagjöf.   

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. ágúst 2008.