Spurt og svarað

25. maí 2010

Er ég búin að skemma brjóstagjöfina?

Sælar og takk fyrir góðan vef!

Ég á við vandamál með brjóstagjöfina að stríða. Ég á eina tæplega 3 mánaða sem hefur alltaf verið dugleg að drekka. Mjólkin hefur hreinlega streymt og sú stutta farin að sofa alveg 8-9 tíma á nóttunni. Fyrir viku var rosaleg veisla í skólanum og ég ákvað að skella mér út á lífið. Ég ákvað með viku fyrirvara að fara að safna brjóstamjólk í frystinn til að geta fengið mér almennilega í glas. Kvöldið gekk rosalega vel, hún var ein með pabba sínum og drakk 3 pela og svaf svo alla nóttina eins og hún er vön. Ég gaf henni svo kl.9 um morguninn þegar öll áfengisáhrifin voru horfin. Hins vegar fékk ég rosalegan stálma um nóttina og var töluvert illt í brjóstunum í sólarhring. Síðan kom babb í bátinn. Daginn eftir kom bara lítil sem engin mjólk í brjóstin. Ég fór að verða stressuð og sú stutta að gráta rosalega við brjóstið. Hún hefur síðustu vikuna bara sogið í svona 2-4 mínútur en verður þá ósátt, grætur og vill ekki aftur. Ég er búin að reyna að pumpa mig, en mjólkin eykst ekki og stelpan mín vill ekki drekka, ekki heldur úr pela eða staupi. Ég er orðin ráðalaus og mér finnst mjólkin bara minnka og minnka við þetta ástand. Getur verið að það sé komin vont bragð af mjólkinni, eða hvað er í gangi? Hvað get ég gert?


 

Sæl og blessuð!

Þetta er ekki gott ástand en góðu fréttirnar eru að það er hægt að laga þetta á tiltölulega auðveldan hátt. Það er svolítið eins og að fara aftur til upphafsins. Ímyndaðu þér hvernig brjóstagjöfin var fyrstu dagana og hermdu svolítið eftir því. Hafðu stelpuna mikið upp við þig. Bjóddu henni brjóstið ef hún sýnir merki um að vilja (alveg sama þó það sé á allt öðrum tímum en venjulega). Það er allt í lagi þótt gjafirnar séu örstuttar. Eftir gjöf er smá slökun og svo er seinna brjóstið boðið. Reyndu að muna tilfinningarnar við fyrstu gjafirnar, reyndu að gleyma stressinu. Farðu með hana upp í rúm og þar getið þið kúrt saman og hvílt ykkur. Þið getið jafnvel farið í notalegt bað saman.

Það hefur engin bragðbreyting orðið á mjólkinni. Þetta var heldur of langt hlé á brjóstagjöf sem þú gerðir (þrotinn í brjóstunum var merkið um það). Það hefur myndast spenna á milli ykkar sem þarf að vinna úr og það þarf að gefa barninu tækifæri til að vinna upp mjólkurframleiðsluna.

Vona að gangi vel,
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
25. maí 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.