Spurt og svarað

15. nóvember 2007

Er ég hætt að mjólka nóg?

Hæ, hæ og takk fyrir frábæran vef!

Ég á eina þriggja mánaða skvísu sem hefur frá upphafi ekki verið að þyngjast nægilega. Núna síðustu viku var það aðeins 30 g og síðustu þrjár vikur 210g. Að meðaltali hefur hún verið að þyngjast um 100 g á viku. Ég hef verið ímiklu basli í sambandi við kveisu hjá henni og einn læknir um daginn vildi meina að hún væri kannski bara ekki með kveisu, heldur væri bara svöng. Þá fór ég að bjóða henni bæði brjóstin í einu og gefa henni ábót (sem hún vildi reyndar ekki). Eftir þetta finnst mér eins og brjóstin á mér séu eins og tómar tuskur. Ég er hætt að finna fyrir þeirri tilfinningu að það sé mjólk í brjóstunum (áður fyrr var ég að springa allan daginn) og þegar hún er á brjóstinu hjá mér drekkur hún voða lítið, ég alla vega heyri hana sjaldan kyngja og hún öll á iði. Ég hef verið að nota handpumpu og það kemur ekki dropi! Svo bara sofnar hún eftir allt saman. Svo var talað um að fara að gefa henni graut og sjá hvernig hún taki honum. Ég bara skil þetta ekki, ég sem var alltaf svo full og núna kemur varla dropi (að mér finnst). Getur það bara verið að ég sé hætt að mjólka?


Sæl og blessuð!

Það er erfitt að segja til um hvort brjóstin hafi minnkað framleiðslu sína á mjólkinni. Oftast helst í hendur lögmálið um framboð og eftirspurn í sambandi við framleiðsluna - að því meiri kröfur sem barnið gerir og því oftar sem það sýgur þá framleiðist meiri mjólk. Mér dettur í hug að dóttir þín sé búin að aðalaga sig að og sætta sig við lítið magamál og þá verður hún södd af litlu magni af mjólk. Ef þú villt reyna að auka mjólkina þá er heillaráð að nota mjaltavél reglulega með gjöfum/sogi hjá litlu dömunni þinni. Ég þekki það bæði hjá konum sem ég hef hugsað um og hjá sjálfri mér -jafnvel þegar börnin eru 7 til 8 mánaða og mjólkin hefur minnkað - þá er hægt að ná henni upp með mjaltavél. Það sem er mikilvægast er að hvetja barnið til að taka bæði brjóstin í hverri gjöf og stytta tímann á milli gjafa - það örvar framleiðsluna oftast. Einnig fyrir mæður að drekka vel af vökva og hvíla sig - og svo er einnig hægt að taka mjólkuraukandi töflur sem heita „Fenugreek“ (það eru leiðbeiningar um þær á www.modurast.is

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. nóvember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.