Er ég hætt að mjólka?

24.11.2007

Hæhæ og takk fyrir frábæran vef!

Ég á eina þriggja mánaða skvísu sem hefur frá upphafi ekki verið að þyngjast nægilega. Núna síðustu viku var það aðeins 30 g og síðustu þrjár vikur 210 g. Að meðaltali hefur hún verið að þyngjast um 100 g á viku. Ég hef verið í miklu basli í sambandi við kveisu hjá henni og einn læknir um daginn vildi meina að hún væri kannski bara ekki með kveisu, heldur væri bara svöng. Þá fór ég að bjóða henni bæði brjóstin í einu og gefa henni ábót (sem hún vildi reyndar ekki). Eftir þetta finnst mér eins og brjóstin á mér séu eins og tómar tuskur. Ég er hætt að finna fyrir þeirri tilfinningu að það sé mjólk í brjóstunum (áður fyrr var ég að springa allan daginn) og þegar hún er á brjóstinu hjá mér drekkur hún voða lítið, ég allavegana heyri hana sjaldan kyngja og hún öll á iði. Ég hef verið að nota handpumpu og það kemur ekki dropi! Svo bara sofnar hún eftir allt saman.

Svo var talað um að fara að gefa henni graut og sjá hvernig hún taki honum.  Ég bara skil þetta ekki, ég sem var alltaf svo full og núna kemur varla dropi (að mér finnst). Getur það bara verið að ég sé hætt að mjólka???


Sæl og blessuð.

Nei, það er engin hætta á að mjólkin hætti að framleiðast svo lengi sem barnið sýgur. Það er hins vegar eðlilegt að þú finnir ekki lengur fyrir mjólkinni í brjóstunum á þessum tíma. Þú ættir frekar að hafa áhyggjur ef þú værir ennþá alltaf að "springa" því það væri óeðlilegt.

Það er hins vegar spurning um hvort barnið er að taka það sem það þarf. Þessar tölur um þyngdaraukningu sem þú gefur upp eru ekki nógu góðar. Þær benda til að barnið taki ekki nóg. Þannig að þú þarft að reyna að tryggja að það fái nógu margar gjafir á sólarhringnum. Prófaðu að taka snuðið af barninu í nokkra daga og sjáðu hvort gjöfum fjölgar ekki. Lengd gjafa á þessum tíma er ekki eins mikið atriði og í byrjun. Þær geta verið ansi stuttar kannski bara örfáar mínútur en inn á milli eiga að koma lengri gjafir. Það er fínt hjá þér að gefa bæði brjóstin. Þá gefurðu fyrra (fyrsta) brjóstið eins lengi og hún endist og skiptir svo. Það er ekki kominn tími til að gefa barninu ábót og því síður graut á meðan þú reynir að ná upp meiri mjólkurframleiðslu.

Það getur hjálpað að reyna handpumpu 1-2 á dag en ekki búast við að það skili miklu. Það er meira hugsað til örvunar. Það er enginn mælikvarði á framleiðslu.

Vona að þetta hjálpi.           

Katrín Edda Magnúsdóttir,
brjóstagjafaráðgjafi og ljósmóðir.
24.11.2007.