Er grautur algert tabú?

05.03.2011
Sælar og takk fyrir góðan vef!
Tæplega fimm mánaða dóttir mín hefur öskrað á brjóstið frá tveggja vikna aldri en ég hef tekið þetta á þrjóskunni og nýtt mér mörg góð ráð frá hinum ýmsu fagaðilum. Engu að síður gargar hún á brjóstið í um það bil annarri hverri gjöf án sýnilegrar ástæðu. Nú er svo komið að ég er orðin þreytt og langar að fara að gefa henni eina til tvær skeiðar af graut á kvöldin, myndi blanda hann með brjóstamjólk. Er það algert tabú? Ef svarið er já, þá langar mig samt að spyrja hvaða graut ég ætti helst að gefa? Tek það fram að eldra barnið mitt fékk ekkert annað en brjóstamjólk í  7 mánuði og ég myndi gjarnan vilja hafa það þannig núna. En ég get þetta ekki lengur. Ég verð í það minnsta að fá svefn á nóttunni til þess að geta þraukað slagsmálin á daginn.
 
Sæl og blessuð!
Það er mjög skiljanlegt að þú sért orðin þreytt ef barnið lætur alltaf svona illa á brjóstinu. Það tekur virkilega á taugarnar. Börn byrja um 6 mánaða á fastri fæðu en það er alltaf svolítið breytilegt eftir einstaklingum. Sum byrja fyrr en önnur seinna. Það er í lagi fyrir þig að prófa eftir að barnið er orðið 5 mánaða að gefa smá graut úr fínu mjöli. Þú finnur það nokkuð fljótt ef barnið er ekki tilbúið. Svo gætirðu líka þurft að sætta þig við þann möguleika að grauturinn sé kannski ekki lausnin á vandamálinu.
Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. mars 2011.