Spurt og svarað

13. janúar 2006

Er hægt að byrja aftur með barn á brjósti?

Sælar og takk fyrir alveg frábæran vef.

Mig langar að vita hvort að hægt sé byrja aftur með barn á brjósti? Ég á tæplega 8 vikna gamla stúlku og hún var eingöngu á brjósti fyrstu 4 vikurnar en eftir það fór hún að fá ábót sem voru mistök númer 1. Svo vatt þetta upp á sig og ég algjörlega missti tökin á þessu öllu saman vegna þreytu og hálfgerðs þunglyndis og núna er hún nær eingöngu á pela. Það kemur ennþá mjólk í brjóstin þótt lítið sé og hún er alveg sátt við brjóstið en núna sé ég eftir þessu pela standi og langar að vera með hana á brjósti. Er þetta hægt? Og ef þetta er hægt þá vantar mig að fá skýrar leiðbeiningar? Hún er að drekka 90-120 ml af þurrmjólk í hverri gjöf og drekkur á bilinu 760-840ml á sólahring. Með ósk um skjót svör!

Kveðja, Frökenin.

...........................................................................................


Sæl og blessuð Fröken!

Já, eins og ég hef nefnt áður þá er alveg hægt að ná upp brjóstagjöf sem hefur af einhverjum orsökum tapast niður. Sérstaklega tekst það vel ef byrjunin hefur verið góð. Aðferðin er í sjálfu sér einföld. Brjóstið er gefið oftar og oftar og meira og meira magn gefið jafnframt því sem dregið er úr ábótargjöfinni. En eins og með svo margt er þetta auðveldara um að tala en í að komast. Því vara ég alltaf konur við því að þetta er mikil vinna og oft erfitt tímabil en í margra augum er það fyllilega leggjandi á sig. Þú ert heppin að vera í þeirri stöðu að barnið er tilbúið að sjúga brjóstið. Þá er um að gera að nýta sér það og leggja barnið á brjóst eins oft og lengi og þú mögulega getur. Sérstaklega eru stuttar aukagjafir gagnlegar til að örva mjólkurmyndun. Mjólkurframleiðsla stjórnast fyrst og fremst af því hve oft barnið sýgur og hve mikið magn mjólkur er tekið úr brjóstinu. Það getur aukist ótrúlega hratt á fáum dögum. Núna byrja allar gjafir með brjóstagjöf á báðum brjóstum og ef barnið er mjög ósátt eftir gjöfina fær það ábót (u.þ.b. 50-60 ml.) Væntanlega verður styttra milli gjafa en var og það er einmitt það besta fyrir brjóstin. Næsta dag minnkar ábótin niður í 40-50 ml. og daginn þar á eftir í 20-30 ml. Sumar gjafir verða væntanlega ábótarlausar þegar barnið er ánægt eftir gjöf.

Það er líka hægt að nota aðra aðferð við ábótargjafirnar en það er að nota svokallað hjálparbrjóst. Þá er sama magn ábótar og talað var um sett í hjálparbrjóstið og barnið fær hana um leið og brjóstið er sogið. Það sem oft reynist konum erfitt sem hafa haft barnið á pela er að læra að treysta eigin líkama til að framleiða þá mjólk sem þarf. Þú kemur aldrei til með að vita hve mikla brjóstamjólk barnið þitt fær í hverri gjöf eða hvernig hún er samsett þannig að þú þarft að venja þig á að lesa úr merkjum barnsins hvernig því líður. Þegar barnið sýnir ótvíræð merki svengdar þá þarf að gefa því. Það skiptir ekki máli hvort það eru 20 mín frá síðustu gjöf eða 4 klst. Og það sem er mikilvægast það segir ekkert um framleiðslugetu brjóstanna. Brjóstin framleiða bara eftir örvuninni sem það fær. Ég vona að ég hafi gefi þér nægilega skýr svör eða að þú getir nýtt þér þau að einhverju leyti.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. janúar 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.