Er hægt að halda áfram gjöf með bara pumpu?

27.12.2006

Góðan daginn!

Mig langar að koma með fyrirspurn varðandi brjóstagjöf.  Þannig er mál með vexti að ég er með 8 mánaða stelpu sem vill ekki orðið drekka brjóst. Hún vildi bara á nóttunni 4-6 sinnum og þegar ég fór að gefa henni pela nennir hún ekki að drekka brjóstið.  Hún er löngu hætt að vilja sjá það á daginn. Lenti líka í þessu með strákinn minn sem er 2 ára. Málið er að mig langaði svo mikið að hafa hana á brjósti til 1. árs.  Get ég haldið mjólk í brjóstunum ef ég mjólka mig með svona handpumpu 2 -3 sinnum á dag og gefa henni þá mjólkina í pela? Langar ekki að hætta strax með hana. Hvað ætli valdi því að þau vilji ekki brjóstið á daginn?

Kveðja, Karen.


Sæl og blessuð Karen!

Þú ert nú þegar búin að gera mjög vel í þessari brjóstagjöf. Ég veit ekki hvað hefur orðið til að börnin þín hætta að vilja brjóstið. Ef þetta hefur gerst á sama tíma í bæði skiptin gæti hjálpað þér að reyna að fara yfir hvað það er sem breytist hjá ykkur á þessum tíma. Er þeim kynntur peli? Eru þau að byrja í pössun? Einhver önnur breyting?  Það þarf ekki að venja barn á pela sem er orðið 6 mánaða þótt það fari að borða og drekka aðra fæðu en brjóstamjólk. Það getur vel drukkið úr glasi eða með röri. Það þarf ekki á pela að halda. Það er kannski sú ástæða sem mér dettur helst í hug þótt það komi ekki fram í bréfinu og ég sé í rauninni að renna blint í sjóinn.  Þú getur alveg viðhaldið mjólkurframleiðslunni með því að mjólka þig nokkrum sinnum á dag. Það er hins vegar svolítið erfitt á þessum tíma að fá brjóstin til að svara vel og þetta virkar því oft bara í stuttan tíma. Reyndu áfram að bjóða brjóstið á nóttunni. Það gæti alveg komið að því að hún sé til í það.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. desember 2006.