Spurt og svarað

27. desember 2006

Er hægt að halda áfram gjöf með bara pumpu?

Góðan daginn!

Mig langar að koma með fyrirspurn varðandi brjóstagjöf.  Þannig er mál með vexti að ég er með 8 mánaða stelpu sem vill ekki orðið drekka brjóst. Hún vildi bara á nóttunni 4-6 sinnum og þegar ég fór að gefa henni pela nennir hún ekki að drekka brjóstið.  Hún er löngu hætt að vilja sjá það á daginn. Lenti líka í þessu með strákinn minn sem er 2 ára. Málið er að mig langaði svo mikið að hafa hana á brjósti til 1. árs.  Get ég haldið mjólk í brjóstunum ef ég mjólka mig með svona handpumpu 2 -3 sinnum á dag og gefa henni þá mjólkina í pela? Langar ekki að hætta strax með hana. Hvað ætli valdi því að þau vilji ekki brjóstið á daginn?

Kveðja, Karen.


Sæl og blessuð Karen!

Þú ert nú þegar búin að gera mjög vel í þessari brjóstagjöf. Ég veit ekki hvað hefur orðið til að börnin þín hætta að vilja brjóstið. Ef þetta hefur gerst á sama tíma í bæði skiptin gæti hjálpað þér að reyna að fara yfir hvað það er sem breytist hjá ykkur á þessum tíma. Er þeim kynntur peli? Eru þau að byrja í pössun? Einhver önnur breyting?  Það þarf ekki að venja barn á pela sem er orðið 6 mánaða þótt það fari að borða og drekka aðra fæðu en brjóstamjólk. Það getur vel drukkið úr glasi eða með röri. Það þarf ekki á pela að halda. Það er kannski sú ástæða sem mér dettur helst í hug þótt það komi ekki fram í bréfinu og ég sé í rauninni að renna blint í sjóinn.  Þú getur alveg viðhaldið mjólkurframleiðslunni með því að mjólka þig nokkrum sinnum á dag. Það er hins vegar svolítið erfitt á þessum tíma að fá brjóstin til að svara vel og þetta virkar því oft bara í stuttan tíma. Reyndu áfram að bjóða brjóstið á nóttunni. Það gæti alveg komið að því að hún sé til í það.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. desember 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.