Spurt og svarað

05. október 2014

Er hægt að koma 4.mán. barni á brjóst

 

Sælar!

Takk fyrir mjög góða og upplýsandi vefsíðu. Ég á fjögurra mánaða gamalt barn sem mér tókst því miður ekki að koma á brjóst. Það hefur sennilega verið vegna reynsluleysis og vegna þess að mér var ráðlagt að gefa henni ábót á pela mjög snemma. Eftir það vildi hún ekki sjá brjóstið. Ég pumpaði mig samviskusamlega dag og nótt til þess að hún fengi þrátt fyrir allt aðallega móðurmjólk. Vegna mikilla anna við flutninga o.fl. gat ég ekki pumpað eins oft og áður svo að mjög hefur dregið úr mjólkurframleiðslunni síðastliðnar þrjár vikur. Auk þess var það farið að taka mjög á andlega að vera svona bundin við mjaltavélina og allt sem því fylgir. Hins vegar fæ ég sting í hjartað þegar ég hugsa um hversu miklu dóttir mín missir af við að fá ekki lengur móðurmjólk. Ég er að velta því fyrir mér hvort ég ætti að reyna að koma henni aftur á brjóst. Er það raunhæfur möguleiki á þessu stigi máls að gera það og ef svo er hver væri besta aðferðin?


Sæl og blessuð!

Það kostar mikla vinnu að fá barn til að taka aftur brjóst en það eru til konur sem hafa gert það. Mestu skiptir hvernig byrjunin var. Ef barnið tók eitthvað brjóst í byjun og lærði brjóstasog þá er meiri möguleiki. Ef svo var ekki þá er mun erfiðara að ætla því að læra það svona seint. Þú ert hins vegar búin að vera afar dugleg að mjólka og gefa mjólkina þína og ef að það gengur áfram þá er það mikils um vert. Þú getur reynt að auka framleiðsluna með því að fjölga mjöltum. Það tekur oft nokkra daga að skila sér, svo vertu þolinmóð. En öll mjólk sem þú nærð að mjólka og gefa er jákvæð fyrir barnið.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. október 2014.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.