Spurt og svarað

19. október 2014

Er hægt að missa mjólkina

Sælar og takk fyrir frábæran vef sem mikið hefur hjálpað!

Mig langar að fá að leita til ykkar fróðu kvenna nú þegar ég hef áhyggjur af brjóstagjöfinni hjá mér. Þannig er mál með vexti að ég á einn stóran og sterkan 4 1/2 mánaða dreng. Brjóstagjöfin hefur gengið betur en ég þorði að vona eftir mjög slæma brjóstagjafareynslu með fyrra barn. Mér finnst kraftaverk að drengurinn sé orðin þetta gamall og aldrei fengið ábót. Nú hinsvegar finnst mér brjóstagjöfin vera á niðurleið og hef áhyggjur því ég er ekki tilbúin að hætta eða fara að gefa honum þurrmjólkurábót eða graut. Mér finnst eins og hann sé ekki að fá nóg hjá mér. Hvort sem ég sé ekki að framleiða nóg (ef það er þá hægt) eða að ég sé að missa mjólkina. Ég er byrjuð í líkamsrækt. Getur það skemmt eitthvað? Ástæðan fyrir áhyggjum mínum eru að hann drekkur mjög stutt í einu þar sem flæðið er svo stutt og hann hættir að nenna að sjúga þegar ekkert kemur. Áður virtist flæðið úr brjóstunum standa mun lengur yfir. Nú verður hann pirraður við brjóstið og kvartar eftir hverja gjöf. Svo er hann farinn að bíta mig og þá klemmir hann vörtuna með gómnum og rykkir höfðinu aftur sem er ótrúlega sárt. Eins reyni ég að mjólka mig en er rétt að fá 40-60 ml. eftir um 20 mín. áður 130 ml. Ég er búin að vera að taka mjólkuraukandi töflur. Þær hafa hjálpað en þetta dettur bara í sama farið þegar ég hætti að taka þær. Mér finnst eins og við séum að detta í neikvæðan vítahring og ég kvíði brjóstagjöfinni, sem minnir á slæma fyrri reynslu. Ég vona að þið getið ráðlagt mér um hvað er í gangi og hvað ég get gert til að halda honum áfram á brjósti. Hann hefur dafnað vel er fæddur 4210 gr. og 54cm. og er í dag um 7500gr .og 69 cm.

Með fyrirfram þökk Ásta.
Sæl og blessuð Ásta!

Miðað við lýsinguna hjá þér er brjóstagjöfin í eðlilegu ferli. Það er eðlilegt að hver brjóstagjöf styttist þegar börn eru orðin þetta gömul. Þá eru þau orðin tæknilega mjög fær í að ná mjólkinni á mjög stuttum tíma og mörg verða pirruð ef verið er að reyna halda þeim lengi við brjóstið. Það eru auðvitað til dúllarar en þinn drengur er ekki einn af þeim. Flæðið í brjóstunum átt þú líka að hætta að finna. Þú getur ekki lengur metið hve mikil mjólk er að fara til barnsins. Það er enginn hætta á að mjólkin minnki eða hverfi ef barnið er að drekka reglulega og fær enga ábót. Um leið og þú ferð að gefa ábót fer framleiðsla mjólkur hins vegar að minnka. Líkamrækt breytir engu og er bara af hinu góða. Það er líka eðlilegt að það verði erfiðara að mjólka mikið af mjólk með vél eða pumpu á þessum tíma. Brjóstin svara betur barninu og mjólkað magn er enginn mælikvarði á framleiðslu. Ég vona að brjóstagjöfin þín haldi áfram og að þú náir að aðlagast breyttu ástandi.

Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. október 2014.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.