Spurt og svarað

28. maí 2005

Er hægt að setja mjólkurframleiðslu af stað aftur?

Er hægt að ná upp einhverri mjólkurframleiðslu aftur eftir að brjóstagjöf hefur verið hætt? Ég á 4 mánaða strák og hætti alveg með hann á brjósti fyrir u.þ.b. 7-8 vikum síðan. Ég mjólkaði ágætlega fyrri part dagsins en seinnipartinn og á kvöldin fékk hann nánast ekki neitt og var hættur að þyngjast svo ég skipti yfir í þurrmjólk og allt gengur ljómandi vel. Ég sé samt eftir því að hafa ekki haldið áfram að leggja hann á brjóstið einu sinni til tvisvar á dag, t.d. á morgnana og er að velta því fyrir mér hvort það sé einhver möguleiki að byrja aftur núna með 1 gjöf á dag? Næ ég upp mjólk aftur með því að leggja hann á brjóstið í nokkra daga?

......................................................................


Sæl og blessuð.

Jú, það er oft hægt að setja mjólkurframleiðslu af stað aftur eftir eitthvert hlé. Það gengur þó best ef byrjunin (fyrstu 2 dagar eftir fæðinguna) gekk vel. Það þarf þó að leggja ákveðna vinnu á sig í nokkra daga. Það er að segja það þarf að örva þetta allt upp á nýtt. Barnið þarf að vera virkur þátttakandi og viljugt en það eru þau flest. Ég hvet þig til að reyna að fá barnið til að taka brjóst nokkrum sinnum á dag í nokkra daga. Það þarf ekki að vera lengi í einu en gott ef það nær alla vega 10 mínútum í senn. Það duga ekki 1-2 skipti á dag heldur a.m.k. 3-4 sinnum. Strax eftir 3-4 daga ætti að vera komin næg mjólk fyrir 1-2 skipti á dag og þá fækkarðu gjöfunum í það.

Með bestu kveðju og von um að þú hellir þér út í þetta,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.