Er hægt að setja mjólkurframleiðslu af stað aftur?

28.05.2005

Er hægt að ná upp einhverri mjólkurframleiðslu aftur eftir að brjóstagjöf hefur verið hætt? Ég á 4 mánaða strák og hætti alveg með hann á brjósti fyrir u.þ.b. 7-8 vikum síðan. Ég mjólkaði ágætlega fyrri part dagsins en seinnipartinn og á kvöldin fékk hann nánast ekki neitt og var hættur að þyngjast svo ég skipti yfir í þurrmjólk og allt gengur ljómandi vel. Ég sé samt eftir því að hafa ekki haldið áfram að leggja hann á brjóstið einu sinni til tvisvar á dag, t.d. á morgnana og er að velta því fyrir mér hvort það sé einhver möguleiki að byrja aftur núna með 1 gjöf á dag? Næ ég upp mjólk aftur með því að leggja hann á brjóstið í nokkra daga?

......................................................................


Sæl og blessuð.

Jú, það er oft hægt að setja mjólkurframleiðslu af stað aftur eftir eitthvert hlé. Það gengur þó best ef byrjunin (fyrstu 2 dagar eftir fæðinguna) gekk vel. Það þarf þó að leggja ákveðna vinnu á sig í nokkra daga. Það er að segja það þarf að örva þetta allt upp á nýtt. Barnið þarf að vera virkur þátttakandi og viljugt en það eru þau flest. Ég hvet þig til að reyna að fá barnið til að taka brjóst nokkrum sinnum á dag í nokkra daga. Það þarf ekki að vera lengi í einu en gott ef það nær alla vega 10 mínútum í senn. Það duga ekki 1-2 skipti á dag heldur a.m.k. 3-4 sinnum. Strax eftir 3-4 daga ætti að vera komin næg mjólk fyrir 1-2 skipti á dag og þá fækkarðu gjöfunum í það.

Með bestu kveðju og von um að þú hellir þér út í þetta,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. maí 2005.