Er lítil brjóstamjólk betri en engin?

05.03.2009

Hæ og takk fyrir æðislegan vef!

Ég er með strákinn minn fjögurra mánaða á brjósti um helminginn og hinn helmingurinn sem hann fær er þurrmjólk úr pela. Sumir segja að hann fái heilmikið út úr því að fá brjóstamjólkina þó lítil sé en aðrir að hann sé bara að totta og fái ekkert úr brjóstinu. Ég er ekki sammála því síðarnefnda því þá myndi hann klára meira úr pelunum. Hvað fær hann út úr því að fá smávegis brjóstamjólk úr því að hann er hvort sem er að fá þurrmjólk? Og get ég sagt að ég sé með hann á brjósti ef hann fær bara helminginn af því sem hann borðar úr brjóstinu? Hann vex mjög vel og er alltaf rosalega glaður.

Kær kveðja. Harpa.

 


Sæl og blessuð Harpa!

Það er rétt hjá þér að hann fær heilmikið út úr því að vera eitthvað á brjósti. Þó ekki sé talað um annað en nærveruna og snertinguna. Það er mikilvægara en margur heldur. Svo fær hann mjög mikilvæg efni úr mjólkinni þinni. Þú getur svo auðvitað reynt að auka hlutfall brjóstamjólkurinnar með því að minnka þurrmjólkina og gefa auka brjóstagjafir í staðinn.

Gangi þér vel áfram.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. mars 2009.