Er meiri hætta á að börn fái eyrnabólgur ef þeim er gefið brjóst útafliggjandi?

30.08.2007

Góðan daginn og takk fyrir góðan vef.

Mig langar að vita hvort það sé eitthvað til í því að það sé meiri hætta á að börn fái eyrnabólgur ef þeim er gefið útafliggjandi, þ.e.a.s. ef móðirin liggur á hlið í rúminu og lætur barnið liggja í rúminu upp við brjóstið á meðan hún gefur því brjóst. Ég á 3 börn og á von á því fjórða. Öll mín börn hafa fengið brjóstið útafliggjandi á nóttunni og bara eitt þeirra varð „eyrnabarn“. Ég hef oft heyrt þetta með hættuna á eyrnabólgum en veit ekki hvort þetta eru bara einhverjar kerlingabækur eða hvort þetta er staðreynd. Ég er bara að tala um næturgjafirnar þar sem mér finnst óþægilegt að sitja uppi í rúminu á nóttinni þar sem ég er bakveik og finnst ekki gott að finna mér góða stellingu sitjandi í rúminu, og mér finnst of mikið rask að vera að fara fram í stofu um miðjar nætur  til að geta setið í stól við brjóstagjöfina. Ég hef ekki pláss til að vera með góðan stól í svefnherberginu.

Með von um skjót og góð svör. Takk fyrir.


Sæl og blessuð!

Nei, það er ekki talin meiri hætta á eyrnabólgum við útafliggjandi brjóstagjöf ef barnið er eingöngu á brjósti. Það hafa hins vegar rannsóknir sýnt meiri hættu á eyrnabólgum við útafliggjandi pelagjöf ef barn er á þurrmjólk. Það er mjög algengt að fólk rugli þessu saman. Já, þetta er ein af þessum kerlingabókum sem virðist þurfa margar aldir til að losna við eins og að mæður megi ekki borða hitt og þetta í brjóstagjöf, megi ekki verða kalt á brjóstunum, megi ekki fara í leikfimi o.s.frv. Þú tekur eftir að þær miðað alltaf að því að gera mjólkandi mæðrum erfitt fyrir. Konur eiga ekki að þurfa að umturna lífi sínu þótt þær séu með barn á brjósti heldur bara að láta sér líða vel. Vona að þú eigir ánægjulega brjóstagjöf framundan.       

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. ágúst 2007.