Spurt og svarað

03. febrúar 2006

Er mjólkin að minnka?

Sæl kæra ljósmóðir og takk fyrir frábæran vef,

Þannig er mál með vexti að sonur minn er 11 vikna og ég er eingöngu með hann á brjósti.  Brjóstagjöfin hefur gengið vel, þó með minniháttar óþægindum fyrir mig.  Hann var með mikið loft í maganum fyrstu átta vikurnar og drakk þá oft en stutt.  Hann svaf þó alltaf á nóttunni og þá fór allt á flot hjá mér með tilheyrandi hnútum sem aldrei urðu þó slæmir.  Eftir að magavesenið hætti fór hann að sofa meira og líða betur og lengra að verða á milli gjafa.  Það lak þó alltaf á nóttunni og líka þegar að líða fór að gjöf og brjóstin urðu þung og stór. Svo allt í einu fyrir
tveimur dögum tók ég eftir því að brjóstin á mér eru ennþá svo mjúk þó að liðnir séu upp undir fjórir tímar frá seinustu gjöf.  Eins og það sé engin mjólk í brjóstunum.  Ég hef alltaf gefið honum annað brjóstið í einu því hann hefur drukkið og alls ekki viljað hitt brjóstið.  Núna er hann alltaf til í að taka brjóst númer tvö.  Hann drekkur líka í smá stund (2mín) og rífur sig frá og er strax til í að taka næsta brjóst, drekkur þar líka kannski í mesta lagi í 2 mínútur. Þá set ég hann aftur á fyrsta brjóstið.  Mér finnst eins og ég sé ekki með nóga mjólk.  Síðan prófaði ég að pumpa mig bara smá til að sjá hvort að það kæmi mjólk og viti menn það kom mjólk.  Ég vil vera með son minn á brjósti eins lengi og ég get þannig að ég vil reyna að taka á vandamálinu strax.  Spurningin er, er ég að gera úlfalda úr mýflugu þ.e.a.s eru brjóstin búin að finna jafnvægi og þyngjast ekki lengur á milli gjafa eða er ég að missa mjólkina af einhverjum ástæðum?  Það hafa ekki orðið neinar breytingar á háttum mínum (stress, lyf eða þess háttar).  Á ég að reyna að auka mjólkina með því að setja hann á brjóstin eins oft og ég get?

Með fyrirfram þökkum,
Margrét

..........................................

Sæl og blessuð Margrét.

Það virðist ekki vera neitt fyrir þig að hafa áhyggjur af. Eins og þér datt sjálfri í hug þá eru brjóstin að aðlagast. Núna átt þú ekki að finna neitt fyrir mjólkinni, lekinn á að hætta og þú átt ekki að finna fyrir þani eða óþægindum nema of langt sé liðið frá síðustu gjöf. Þú ert með 11 vikna barn sem er orðið það stórt og sterkt að það passar sjálft upp á að fá þá mjólk sem það þarfnast. Brjóstin svara þörfum þess beint og þú hefur í sjálfu sér lítið um það að segja. Það er ekki nema þú neitir því um að sjúga að þú getur lent í vandræðum með mjólkurframleiðsluna.
Samtímis aðlögun brjóstanna ertu að upplifa hegðunarbreytinguna hjá barninu sem fylgir þroska þess. Það drekkur stutt, rífur sig frá, lætur eins og það hafi engan áhuga, grípur svo aðeins aftur í o.s.frv. Endilega leyfðu því að hafa það eins og það vill. Nú þarftu líka að vera skemmtiatriði á meðan gjöf stendur. Kröfurnar sem gerðar eru til mæðra...þær eru engu líkar.
Það er ekki nokkur ástæða til að ætla að mjólkin sé eitthvað að minnka hjá þér. Hvort þú gefur eitt eða tvö brjóst í gjöf er ykkar tveggja að ákveða.
          
Með bestu ósk um gott gengi.        
 
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
03.02.2006.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.