Spurt og svarað

31. maí 2005

Er óhætt að gefa svona oft?

Góðan daginn!

Þannig er mál með vexti að ég er með einn sem er að verða 3 vikna og er eingöngu á brjósti.  Hann tók strax vel brjóstið, var léttur þegar hann fæddist eða 3.190 gr en var búinn að þyngjast upp í 3.350 gr í 6 daga skoðuninni og upp í 3.690 gr þegar hann var 2 vikna.  Hann er mjög óvær og grætur oft, og grætur oft sárt en sefur stutt í einu. Hann virðist stanslaust vera svangur, líður aldrei meira en 2 tímar milli gjafa, hann er reyndar byrjaður að vilja brjóstið eftir 1 og hálfan tíma.  Stundum tekur hann svo pásur og er frekar lengi að drekka í einu, hef stundum þurft að setja hann líka á hitt brjóstið en ekki oft, finnst það samt vera að aukast.  Vil benda á að ég er víst fastmjólka á þann hátt að það streymir ekki úr brjóstunum þegar hann er ekki að drekka, en vel um leið og hann byrjar. Er hann svona rosalega æstur í að stækka og alltaf svangur, eða er ég að gera illt verra með því að vera að setja hann svona oft á brjóstið.  Ég er búin að taka margt út úr matarræðinu mínu, lauk, ávexti, mjólkurvörur, gos o.fl. og verið að gefa honum miniform dropa í nokkra daga, en finnst það ekki breyta neinu.  Hann kúkar og pissar vel og allt svoleiðis, en mér finnst svo erfitt að sjá hann þjást svona. Er mér óhætt að gefa honum svona oft, eða er ég að gera eitthvað alveg kolvitlaust?  Ég hef sjálf auðvitað mjög lítið getað hvílt mig síðustu daga en það er aukaatriði. Er eitthvað sem ég get gert til að hjálpa litla krílinu mínu?

Með von um hjálp, KSH.

....................................................................

Sæl og blessuð KSH.

Ég vona að það sé eitthvað sem þú getur gert til að hjálpa litla krílinu. Jú, þér er óhætt að gefa svona oft. Almenna reglan er sú að þú getur aldrei gefið brjóstabarni of oft. En þá kemur á móti að stundum hittir maður mæður sem eru einfaldlega að gefa of oft. Það er að segja þá eru gjafirnar ekki nógu „góðar“. Þá biður barnið um endalaust að drekka í staðinn. Þegar ég segi „góðar“ þá á ég við að þær eru ekki nógu langar eða að það er skipt of ört á milli brjósta. Þannig fær barnið alltaf of mikinn hluta gjafarinnar formjólk en það vantar meiri eftirmjólk. Börn geta þyngst vel af svona gjöfum sérstaklega í byrjun en svo verður þyngdaraukning ónóg þegar frá líður. Þau biðja mjög oft um að fá að drekka en eru óvær og óánægð. Það virðist líka oft sem þau þjáist af magaverkjum. Aðalatriðið hjá þér er held ég að þú vandir betur til hverrar gjafar. Gefir fyrra brjóstið lengi, t. d. 20-30 mínútur áður en þú skiptir um brjóst. leyfir síðan barninu að sjúga seinna brjóstið eins lengi og það vill. Það skiptir líka máli að þú sért afslöppuð í gjöfunum og einbeitir þér. Það er nauðsynlegt að útiloka alla þá truflun sem hægt er og skapa notalegt gjafaumhverfi. Konur eru misnæmar fyrir truflunum og eitthvað sem öðrum kemur fyrir sjónir sem væg umhverfisáhrif getur eyðilagt gjafirnar fyrir sumum mæðrum. Þér er óhætt að taka allt inn í fæðið þitt aftur og borðaðu endilega fjölbreyttan og hollan mat sem þér finnst góður með reglulegu millibili. Reyndu að sinna sjálfri þér þannig að þú sért afslöppuð, vel nærð og þokkalega hvíld.

Með von um að þetta hjálpi eitthvað,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
31. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.