Spurt og svarað

20. febrúar 2008

Er slæmt að drekka kúamjólk þegar verið er með barn á brjósti?

Góðan dag!

Ég las það á netinu að það gæti farið í magann á barninu þegar móðirin drekkur kúamjólk og er með barnið á brjósti. Málið er það að ég bý í sveit og drekk þar nýja mjólk, og barnið sem er að mestu á brjóstamjólk er búið að vera með mikinn pirring í maga síðast liðnar 2 vikur. Það þyngist vel, eða of mikið - um 1 kg á 2 vikum og stækkar um 3-4 cm. En spurningin er sú hvort ég þurfi að hætta að drekka mjólk, og hvort það sé kannski betra fyrir mig að drekka nýmjólk eða léttmjólk í staðinn? Ég borða mikið af mjólkurvörum, og ætti kannski að prófa að hætta því, eða minnka það verulega. Svo er það líka ein spurning. Mér finnst óþægilegt að hafa barnið á brjósti, og keypti mér því mjólkurpumpu og mjólka mig og gef í pela, er það slæmt? Ég veit að móðurmjólkin er það besta sem ég get gefið barninu og vil því frekar gefa pela heldur en að hætta með það á brjóstamjólk. Hann er mánaðagamall. Hann drekkur meira úr pela heldur en úr brjósti, var alltaf frekar áhugalítill á brjósti. Hann fær alveg yfirdrifið nóg segir ljósmóðirin, en ég gef honum stundum þurrmjólk þegar mér finnst ég ekki hafa nóg handa honum. en ekki oftar en 1-2 á dag. Ljósmóðirin vill að ég hætti að gefa honum um næturnar svo við fáum bæði meiri svefn. Hvernig á ég að fara að því? Hann er búinn að vera með í maganum og ég er búin að prufa ýmis ráð til að laga það en ekkert virkar.Ég held að þetta sé komið, honum líður greinilega illa og sefur heldur ekkert voða vel, en ég talaði við lækni og hann sagðist líklega ekkert
geta gert.

Með vonum svör.


Sæl og blessuð.

Ofnæmi fyrir kúamjólk er aðeins eitt af því sem kemur til greina til að valda börnum óþægindum. Það eru ýmis önnur atriði sem koma til greina. Kúamjólkurprótín eru það lík móðurmjólkurprótínum að þau komast á milli að einhverju leyti og getur stundum valdið óþoli hjá brjóstfæddum börnum. Gerð mjólkurinnar skiptir yfirleitt ekki máli þ.e.a.s. það skiptir ekki máli hvort þú drekkur ómeðhöndlaða kúamjólk eða keypta mjólk. Þú ert hins vegar að gefa barninu kúamjólk beint sem þurrmjólk svo það liggur beinast við að hætta því og sjá til í viku hvort barnið lagist ekki. Ef þú vilt reyna að hætta á mjólkurmat þá verðurðu að taka algjörlega út alla mjólk og mjólkurmat og allt sem mjólk er í og láta líða 1-2 vikur til að fá fullvissu fyrir árangri.  Það að gefa barninu mjólkaða brjóstamjólk er þitt val. Það er að sjálfsögðu aukavinna fyrir þig en ef þér finnst það betra þá er það í lagi. Þú þarft að passa að gefa mikla aukasnertingu og knús því eins og komið hefur oft fram á þessari síðu þá er brjóstagjöf svo miklu mera en bara næring. Mánaðargamalt barn er alltof ungt til að hætta næturgjöfum og mér finnst líklegt að þú og ljósmóðirin hafi eitthvað misskilið hvor aðra. Ef barnið sefur hjá þér og fær að drekka næturgjöf (gjafir) þá er líklegt að það sofi vel.

Vona að þetta hjálpi eitthvað.     

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. febrúar 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.