Er það slæmt fyrir barn að vera einungis á þurrmjólk?

26.05.2008

Hæ, hæ, og takk fyrir frábærann vef sem er gott að leita til :)

Nú vonast ég innilega eftir svari því ég virðist hvergi getað fundið svar við þessu.

Er það slæmt fyrir barn að vera einungis á þurrmjólk? Ég drekk mikið af malti og öllu sem á að framkalla meiri mjólk, en mjólkin hjá mér virðist vera mjög takmörkuð, ég á litla dóttir sem fæddist 7 vikum fyrir tímann, og er næstum því orðin 2 mánaða. Hún nær kannski að drekka aðeins á brjósti, í u.þ.b. 15 mínútur en svo hættir mjólkin að koma en hún er ekki búin að fá nóg litla stelpan, þannig að ég þarf að gefa henni ábót á pela. En ætti það alveg að vera í lagi?

Mjólkin virðist fara minnkandi með hverjum degi og það er alveg hætt að leka hjá mér. Þau eru nánast alltaf alveg mjúk (ekki hörð eins og þegar þau eru að fyllast) og yfirleitt er hún búin að klára allt á 5-10 mín. Vonandi fæ ég einhver svör!

Með fyrir fram þakkir, Mamma í vandræðum.Sæl og blessuð.

Fyrir mér hljómar þetta sem barn sem getur fengið alveg nóga mjólk úr brjóstum og ætti ekki að fá ábót. Ef barnið er viljugt að sjúga brjóstið þá er um að gera að nýta það. Láta það taka bæði brjóst og jafnvel yfir á fyrra brjóstið aftur í hverri gjöf. Ekki gefa ábót þannig að það vakni fljótt til að taka brjóst aftur. Barnið ætti ekki að vera lengi að ná því sem það þarf á þessum aldri (tölurnar sem þú nefnir gætu passað). Eftir 2-3 daga eykst framleiðslan til muna um leið og ábótin er farin út. Þú ættir samt ekki að finna fyrir mjólk í brjóstunum það er aðlögun brjóstanna en kemur framleiðslugetu ekkert við. Svo geturðu líka alveg sleppt þessu Malti og drykkjum. Það er betra að drekka bara það sem mann langar í og ekkert of mikið.  Það skiptir meginmáli að þú hafir trú á að þú og þinn líkami geti þetta á náttúrulegan hátt. Mjólkin framleiðist bara þegar barnið kallar eftir henni þannig að hún takmarkast ekki nema þegar of lítið er tekið af henni.

Spurningu þinni vil ég því svara með annarri. Viltu ekki reyna bara brjóstagjöf? Ef þú ert til í að prófa nokkra daga þá veit ég að það gengur. Og ef þér finnst þú þurfa hjálp þá skaltu endilega fá hana.

Með baráttukveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. maí 2008.