Erfitt að hætta brjóstagjöf

29.06.2007

Hæ, hæ!

Á strák sem er að verða átta mánaða og drekkur enn 3 sinnum yfir nóttina (kl. 12, 4 og 6). Ég er byrjuð að vinna og er því hætt með hann á brjósti á daginn. Hann borðar vel og drekkur mikið vatn og safa yfir daginn. Við höfum reynt þrisvar sinnum að minnka næturgjafirnar en ég hef alltaf gefist upp. Ég hef prófað að gefa honum vatn og brjóstamjólk úr stútkönnu á nóttunni en hann verður mjög reiður og grætur mikið og alltaf endar það þannig að ég gefst upp og gef honum brjóstið. Er einhver mild aðferð til við að venja hann af þessu? Við viljum ekki skipta yfir í pela, okkur finnst við vera að færa vandann þá yfir í annað.  Hann hefur aldrei sofnað út frá brjósti og hann er hættur að fá brjóst á kvöldin.

Með fyrirfram þökk.


Sæl og blessuð!

Í mínum augum er þetta 1 kvöldgjöf (kl.12) og 2 næturgjafir. Ekki að það skipti neinu megin máli. En 8 mánaða barn sem mótmælir svo kröftuglega en einfaldlega ekki tilbúið. Gefðu honum 1 mánuð og prófaðu svo aftur. Prófaðu að taka fyrri næturgjöfina út. Ef hann mótmælir aftur svo harkalega gefurðu honum annan mánuð. Þá er enn líklegra  að hann sé orðinn tilbúinn. Það er miklu auðveldara að kynna breytingar fyrir 10-12 mánaða börnum en 8 mánaða. Þetta er þó alltaf einstaklingsbundið. Þú ættir að finna þetta svolítið sjálf eins og þú ert í raun búin að komast að.

Gangi þér vel.   

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
29. júní 2007.