Spurt og svarað

19. október 2007

Erfitt líf

Ég er með eina 4 vikna snúllu. Eftir fæðingu hennar veiktist ég mjög mikið og lagðist inn á geðdeild með stelpuna mína og er farin að taka Zoloft 50 mg og Sobril 15 mg x3 á dag. Ég er öll að koma til, fer fljótlega að líða að útskrift.En ég er í þvílíku basli með snúlluna. Hún vill aldrei ropa og það er mikill rembingur stundum hjá henni, hún sefur lítið sem ekkert og aldrei hægt að leggja hana frá sér. Fékk Phenergan hjá lækni og mér finnst það satt að segja ekkert virka, jú hún ropar kannski aðeins meira en er ekkert værari og svo finnst mér hún æla svo mikið eftir gjafir, stundum gusast út um allt gólf. Á brjóstinu er hún svo rosalega gráðug og kyngir hratt og hún var 7 mín á öðru brjóstinu í gær og allt upp úr henni aftur.

Svo er alltaf gröftur í augunum (hún er að fara til augnlæknis), hún er með þvílíka nefstíflu og svo með sár og rauð á rassinum. Hvað á ég að gera til að missa geðheilsuna ekki alveg aftur! Eru lyfin sem ég tek að hafa áhrif eða er græðgin hjá henni á brjóstinu að valda loftmyndun. Á ég að hætta að nota Phenergan? Svo er engin regla á svefninum hjá henni, væntanlega út af óværðinni, í fyrradag vakti hún frá sex um morguninn til 8 um kvöldið! Grét allan tímann!

Ég er svo líka rosalega óörugg með brjóstagjöfina, hef heyrt hitt og þetta og aldrei sagt það sama og ég er bara farin að gefa annað brjóstið núna, er mjög lausmjólka, er það kannski líka að hafa áhrif? Þarf maður að klára úr brjóstinu? Ég veit aldrei hvort það sé „tómt“ eður ei.

Kveðja, ein óörugg og ráðalaus.Sæl og blessuð „ein óörugg og ráðalaus“.

Já, þetta er stundum erfitt líf. En sem betur fer eru það yfirleitt bara tímabil. Svo breytist allt aftur. Ég held að það sé gott að þú ert búin að fá lyf sem hjálpa þér og það er mikilvægt að þú haldir áfram að taka þau. Þau ættu ekki að hafa áhrif á vandræðin varðandi brjóstagjöfina. Ég veit ekki með lyf barnsins. Ef þau hjálpa ekki er rétt að taka það upp við barnalækninn. Það gæti verið að hann vildi breyta um tegund eða skammtastærð. Það sem þú ert að lýsa í sambandi við brjóstagjöfina gæti verið einhver útgáfa af offramleiðslu mjólkur. Það að barnið sé gráðugt á brjóstið þýðir að hana vantar næringu. Hún gæti svo verið að taka of stóra skammta því flæðið er hratt. Og þá endar það yfirleitt með að hluti skilar sér aftur annaðhvort með lofti eða af þrýstingi. Það gæti hjálpað þér að minnka flæðið og minnka skammtana. Fyrir það fyrsta þarftu að stoppa allan aukaleka mjólkur úr brjóstunum. Svo þarftu að læra að hafa stjórn á hraða flæðisins með því að klemma brjóstið saman í byrjun gjafar. Eftir 1 mínútu gjöf tekurðu barnið af brjósti og lætur það ropa. Svo leggurðu barnið aftur á sama brjóst og klemmir aftur í ca. 1 mínútu. Þá losarðu takið rólega og lætur hana ljúka gjöfinni (alls 10 mín.). Láttu hana líka ropa eftir gjöfina. Ef hún er ósátt eftir gjöfina má hún fá næstu gjöf eftir ca. 20 mín. og þá af hinu brjóstinu á sama hátt. Og við síðustu spurningunni er svarið nei, þú þarft ekki að hugsa um að „klára“ úr brjóstinu því það er ekki hægt.

Vona að þetta hjálpi.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19. október 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.