Spurt og svarað

05. febrúar 2006

Erfið á brjósti

Sælar ljósur,
Ég er í smá vanda með mína litlu dömu sem er 7 vikna. Ég er eingöngu með hana á brjósti og hefur gengið vel þangað til fyrir svona 2 vikum síðan en síðan þá hefur hún verið illfáanleg til að taka brjóstið og sérstaklega þegar hún er með loft í maganum þá er hún alltaf að sleppa brjóstinu og fara á það aftur og stundum þá vill hún bara ekki brjóstið, hún argar bara á mig!
Eins finnst mér hún vera svo stutt á brjóstinu stundum bara 5 mínútur eða minna og þá finnst mér þetta vera hálfgert tott og að það vanti þennan sogkraft! Mér finnst hún barasta ekki drekka neitt að ráði! Ég finn alveg hvort hún tæmir brjóstin eða ekki! Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessu og vil fyrir alla muni halda henni á brjósti! Hún hefur þyngst vel hingað til, en ég ætla að fara með hana í aukavigtun á morgun til að athuga hvort hún sé ekki að þyngjast nóg!
Hvað getið þið ráðlagt mér?? Ég er líka með áhyggjur um að missa niður mjólkina þar sem mér finnst vanta sogkraftinn hjá henni. Tek það fram að ég er mjög lausmjólka.
Með von um góð og skjót svör,
Kv Hildur

.......................................................


Sæl og blessuð Hildur!

 

Brjóstabörn geta gengið í gegnum allskonar skeið ef svo má segja. Þú segir að hún sé stundum með loft í maganum og það getur valdið henni óþægindum. Ef að hún rífur sig frá og vill ekki brjóstið skaltu ekkert vera að streitast við að halda henni á brjósti, leyfðu henni að jafna sig og prófaðu svo aftur stuttu seinna. Annars er viðbúið að hún gleypi bara enn meira loft og það auki á vanlíðan. Góðu fréttirnar eru að yfirleitt lagast þessi kveisuvandamál um tveggja til þriggja mánaða aldurinn. Stundum eru börnin viðkvæm fyrir umhverfinu og áreitum þegar þau drekka og þú getur prófað að gefa henni að drekka í rólegheitum og dempuðum ljósum, e.t.v. útafliggjandi ef að þú hefur tileinkað þér þá stellingu. Annars er ekki víst að mjólkin sé endilega að minnka þó að hún drekki stutt, því að brjóstin aðlagast oft framleiðslunni um þetta leyti, framleiða jafnmikla mjólk og barnið þarfnast. Þess vegna segja blautu bleyjurnar og hægðirnar og það hvað barnið er að þyngjast, til um það hvort að framleiðslan sé nægileg.

 

Vona að þetta svari spurningunni!

 

Ingibjörg Baldursdóttir,
hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi.
05.02.2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.