Spurt og svarað

12. apríl 2006

Erfið á brjóstinu - C-vítamín til varnar kvefi

Sælar ljósmæður!

Ég er með nokkrar spurningar fyrir ykkur og vonandi getið þið svarað mér! Ég á þrjú börn og sú yngsta er 4ra mánaða, hún er á brjósti en hefur alltaf verið mjög erfið á brjóstinu, það er að segja stundum erfitt að fá hana til að drekka og klára! Hún þyngdist mjög hratt eða um 850 gr á 14 dögum fyrst svo fór hún að hægja á en svo fór hún að þyngjast illa svo ég ætlaði að bjóða henni ábót úr pela en hún vill ekki sjá pelann og vill ekki heldur taka snuð! Ég fór því að gefa henni graut með brjóstinu.
Stundum mjólka ég mig þegar hún hefur drukkið bara til að tæma brjóstin því oft er ég með svo mikla mjólk og í morgun þá mjólkaði ég um 200 ml!! Ég reyni þá oft að gefa henni þessa mjólk úr stútkönnu því ég tími ekki að henda henni, ef hún myndi drekka þetta allt þá væri ég ekki að gefa henni graut!!!

Hvernig get ég fengið hana til að drekka vel úr brjóstunum?Hingað til hefur hún tekið vörturnar rétt en núna finnst mér eins og hún taki vinstra brjóstið vitlaust því það er oft mjög vont þegar hún drekkur svo sé ég að vörtutoppurinn er hvítur! Er algengt að þau taki vörtuna vitlaust á þessum aldri?

Svo er annað, mig langar að vita hvort að auka C-vítamín komi í veg fyrir kvef? Systir mín er að gefa sínum börnum auka C-vítamín töflur en hún heldur að það komi í veg fyrir að þær fái kvef, en yngsta stelpan hennar er 3½ mánaða og er hún að gefa henni ½ töflu og leysir hana upp í vatni.

Með von um góð svör!


 

Sæl og blessuð.

Það sem er einn stærsti kosturinn við brjóstagjöfina frá sjónarhóli barnsins að þau drekka bara það sem þau þurfa og ekki dropa meir. Oftast þegar barn drekkur brjóst nokkuð reglulega og er vært þá er það að fá það sem það þarf. Ef mæður „ákveða“ að það sé ekki nóg og fara að gefa ábót eru þær yfirleitt að offylla barnið með einhverju sem það hefur ekki lyst á og þarf ekki á að halda. Þannig að ég myndi ráðleggja þér að reyna að láta barnið sjálft stjórna sinni næringartöku. Það getur tekið nokkra daga að komast í gott horf og það getur breyst á einhvern þann hátt sem ekki hugnast þér en þetta snýst jú aðallega um barnið og þarfir þess. Fjögurra mánaða barn þarf ekki á graut að halda svo þér er alveg óhætt að sleppa honum. Þú getur líka hætt að mjólka þig. Þegar barnið er búið að drekka nægju sína úr brjóstinu gerirðu ekkert meir. Það er brjóstsins að aðlagast því magni sem var tekið. Þú ert kannski búin að vera að mjólka ansi mikið þannig að þú getur jafnvel þurft að trappa þig niður þannig að þú lendir ekki í vandræðum með brjóstin.Það er betra að reyna ekki að miða þetta barn við fyrri börn varðandi næringartöku því það atriði getur verið mjög ólíkt jafnvel milli systkina.

Þú spyrð hvernig best sé að fá hana til að drekka vel úr brjóstunum. Það gerirðu með því að skapa góðar og notalegar aðstæður í hverri gjöf eins og þér framast er unnt. Restin er barnsins. Þau geta verið í misjöfnu skapi bara eins og við hin.

Þú spyrð líka hvort barn geti farið að taka vitlaust brjóst á þessu aldri. Jú, það er mögulegt en ekki algengt. Fáðu einhvern sem kann til að kíkja á gripið hjá þér.

Og að lokum spyrð þú um C-vítamíngjöf. Ég mæli ekki með því að gefa barninu það en ef móðirin tekur inn C- vítamín þá skilar það sér til barnsins í því formi sem það ræður við.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
12. apríl 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.