Spurt og svarað

07. desember 2007

Erfið brjóstagjöf

Hæ, hæ!

Vil byrja á að þakka fyrir frábæran vef, hann er búinn að hjálpa mér mikið! En málið er það að fyrir stuttu síðan varð óvænt dauðsfall í fjölskyldunni. Ég tók það nærri mér og í kjölfarið af því missti ég niður mjólkina. Síðustu tvær vikur þyngdist dóttir mín einungis um 120 grömm sem er frekar lítið. Áður en þetta gerðist var mér búið að líða frekar illa í brjóstagjöfinni og var farin að hugsa til þess að jafnvel hætta henni. En eftir að ég missti niður mjólkina hefur verið bras á okkur, hún hjakkast á brjóstinu og er ekkert nema þrjóskan en pirrast á endanum. Ég er farin að taka uppá því að gefa bæði brjóstin, læt hana vera lengi á fyrra brjósti (eða þangað til hún verður pirruð) og svo á því seinna. Ég ræddi við hjúkrunarfræðinginn sem er með okkur í ungbarnaeftirlitinu og hún benti mér á að ég gæti gefið þurrmjólk af og til, á meðan við erum að vinna upp framleiðsluna og til að hjálpa stelpunni að þyngjast. Og í sambandi við hvernig mér leið áður en allt dundi yfir, þá benti hún mér á að það væri gott vera fyrstu 3 mánuðina með barnið á brjósti ef maður treysti sér til og er það núna markmið hjá mér að reyna það, og svo jafnvel vera lengur eftir það, en ætla að byrja með þessu markmiði. Ég legg stelpuna á brjóstið þegar hún biður um það, samkvæmt ráðleggingum hjúkrunarfræðingsins. En það er það eina sem hún ráðlagði mér að gera. Er eitthvað meira sem ég get gert? Er eitthvað sem ég get borðað eða drukkið? Síðustu tveir dagar eru búnir að vera rosalega erfiðir fyrir okkur báðar. Hvað getur svona tekið langan tíma? Mér finnst mjólkin ekkert vera að aukast. Getur verið að það sé þurrmjólkinni að kenna? Hef verið að gefa ábót, en þó eftir langan tíma á brjóstinu og eins sjaldan og ég get. Gaf ábót einu sinni í dag og tvisvar í gær.

 


 

Sæl og blessuð.

Það er alltaf erfitt að „brasa“ við brjóstagjöfina ef andlega hliðin er ekki í lagi. En það er alveg hægt að komast yfir það. Það er aðallega gert með því að koma andlegu hliðinni í betra horf. Vinna í því eins og hægt er að komast yfir erfiðleikana og um leið vinna í því að láta neikvæðar tilfinningar víkja rétt á meðan brjóstagjöfum stendur. Vera í sátt við dóttur þína og reyna að skilja hegðun hennar. Það er gott að setja sér markmið eins og þú ert búin að gera en það er ekki gott að gefa svo ungu barni ábót. Það er oft upphafið að endinum. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að líkaminn geti framleitt þá mjólk sem barnið þarf. Það er gott hjá þér að gefa oft og gefa bæði brjóst. Þú getur jafnvel farið aðra umferð. Þú getur líka handmjólkað smá á milli gjafa, kannski tvisvar til þrisvar. Þá er komin feikinóg mjólk eftir 2-3 daga. En það gerist ekki ef andlega hliðin er í ólagi hjá þér. Þannig að þú verður fyrst og fremst að einbeita þér að henni.

Bestu óskir,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. desember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.