Spurt og svarað

22. nóvember 2007

Erfið reynsla af brjóstagjöf

Sæl
Ég er ağ vandræðast hérna með að leggja í þriðja barnið. Okkur hjónunum langar mikið í lítið kríli en það sem stoppar mig er blessaða brjóstagjöfin. Þegar ég átti eldra barnið upplifði ég helvíti varðandi brjóstagjöfina. Barnið var latt og með tunguhaft og ég meğ flatar
geirvörtur og þetta var bara endalaus grátur hjá okkur báðum. Þegar barnið var 6 vikna og ekki ennþá búið að ná upp fæðingarþyngdinni þrátt fyrir öll heimsins ráð gafst ég upp. En þar sem ég mjólka eins og verðlaunakú þá leigði ég mjaltarvél og mjólkaði mig í pela handa barninu í 3 mánuği og var barnið eingöngu á brjóstamjólk þann tíma. Ég vaknaði samviskusamlega á
nóttunni til að mjólka mig og það passaði, ég var passlega búin að því þegar barnið vaknaði til að drekka pelann. Að sjálfsögðu endaði þetta bara með fæðingarþunglyndi sem ég var lengi að vinna mig úr.
Þegar ég átti seinna barnið sagði ég strax upp á spítala að ef þetta myndi ekki ganga strax þá vildi ég fá þurrktöflur. Ég man að ég mætti miklum fordómum frá ljósmæðrunum sem önnuðust mig í sængurlegunni vegna þessarar yfirlýsingar. En ég var ákveðin, ég ætlaði ekki að lenda í
þunglyndispakkanum aftur og útskýrði það fyrir þeim. En sem betur fer var þetta barn aðeins frekara og með aðstoð mexíkanahatts gat ég haft barnið í hálft ár á brjósti. Ég man samt að ég var alltaf skömmuð fyrir notkunina á hattinum, en ég reyndi nokkrum sinnum að hætta að nota hann en það gekk ekki. Barnið þyngdist vel, ég var sátt og barnið líka svo ég skildi ekki afhverju ég var alltaf skömmuð fyrir þetta og tók það inn á mig.
Núna hinsvegar er ég búin ağ fara í brjóstaminnkun (fyrir 6 árum síğan) og ég fékk ofgróninga í örin, svo að örin í kringum geirvörtuna eru upphleypt og breið og ég er aum í þeim og ég er ekki að sjá að það gangi ağ vera með barn á brjósti. En ég satt best að segja treysti mér varla að leggja í annað barn og mæta þeim fordómum sem ég fann fyrir upp á spítala síðast.
Eins átti vinkona mín barn fyrir nokkrum árum eftir brjóstaminnkun og ég var stödd hjá henni í heimsókn upp á spítala þegar ein hjúkkan kom inn til hennar og spurði hana hvernig brjóstagjöfin gengi og hún bar sig eitthvað illa með það og hjúkrunarkonan svaraði "ég skil ekkert í þér að vera að eignast barn eftir að hafa farið í svona aðgerð"
Svo ég er skiljanlega tvístígandi með þetta, mig langar í barn en get ekki hugsað mér brjóstagjöfina og langar ekki að fá leiðindi í hausinn vegna þess. Hvernig er best að snúa sér?


 

Sæl og blessuð.

Mér finnst alls ekki að þetta brjóstagjafamál eigi að trufla þig ef þig langar að eignast annað barn. Brjóstagjafatíminn er bara örlítið brot af ævi barns. Það er hægt að næra barn annaðhvort á brjósti eða þurrmjólk og það er algjörlega þín ákvörðun. Ef þú ert búin að ákveða að hafa barnið ekki á brjósti er það merkt á áberandi stað í mæðraskýrsluna þína einmitt til þess að ekki sé alltaf verið að spyrja sömu spurningana eða vera með óþarfa athugasemdir. Þá geta allir gengið að því sem vísu að þetta sé afgreitt mál og að ekki beri að grufla í því meira.

Með bestu óskum.            

Katrín Edda Magnúsdóttir,  
brjóstagjafaráðgjafi og ljósmóðir.
22.11.2007

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.