Spurt og svarað

24. júní 2012

Erfiðleikar eftir brjóstaverkfall

Sæl!

Þannig er að ég er með einn 8 mánaða enn á brjósti. Hann var eingöngu á brjósti til 6 mánaða en fær nú matargjafir 2-3 á dag af fjölbreyttri fæðu og líkar mjög vel. Okkur hefur gengið vel að koma honum í "rútínu" og hann sefur 2x 1,5 kls.t á daginn, sofnar kl. 21 á kvöldin og sefur í 10-11 tíma (vaknar 1x til að drekka). Brjóstagjöfin gekk erfiðlega í byrjun því ég fékk slæm sár á geirvörturnar. Eftir brjóstagjafaráðgjöf enduðum við á að leigja mjaltavél og gefa honum mjólkina úr Calma pela á móti "skárra" brjóstinu. Eftir að sárið jafnaði sig svo á tæpum mánuði hættum við pelanum og litli fékk að drekka úr báðum brjóstum. En rétt fyrir 7 mánaða fór hann í brjóstaverkfall. Ég hef  velt fyrir mér hvað kom því af stað en ekki komist að niðurstöðu. Það tók okkur 6 daga. Hann beit mikið og var rosalega reiður en gaf sig á endanum og drakk. En brjóstagjöfin er ekki eins og hún var. Nú vill hann bara drekka liggjandi og stundum vill hann ekki sjá brjóstið. Ég hugsa stundum út í hvort ástæðan sé hversu illa gekk hjá okkur fyrst. Ég naut ekki brjóstagjafarinnar fyrstu 3 mánuðina og er hrædd um að hann hafi skynjað það. En það sem ég er að velta fyrir mér núna er hvort ég eigi að hætta brjóstagjöfinni 9 mánaða. Ég held ég sé tilbúin í það því þetta er orðið svo erfitt bæði andlega og líkamlega. En allt sem ég hef lesið á netinu segir að konur eigi að hafa börnin sín sem lengst á brjósti, en samt að hlusta á eigið hjarta. Þetta er rosalega erfitt val, líka eftir allt sem við höfum gengið í gegnum. Ég afsaka hvað þetta er langt bréf en mér finnst þetta vera upplýsingar sem þarf að taka tillit til. Eins og staðan er í dag er næturgjöfin eina gjöfin sem ég get gengið að vísri. Aðrar gjafir eru svona upp og ofan. Hann tekur ekki snuð. Vona að þú getir aðstoðað okkur, annað hvort við að gera brjóstagjöfina betri eða við það hvernig er best að hætta henni.

Með bestu kveðju, Þrjóska Mamman.


Sæl og blessuð Þrjóska Mamman!

Það er erfitt að heyra hvað þetta hefur verið þér erfitt en vonandi verður það betra. Mörgum konum finnst fyrstu mánuðir brjóstagjafarinnar vera besti hlutinn en síðustu vikurnar erfiðastar. Svo er öðrum sem finnst þetta akkúrat öfugt. Þú gekkst að mínu mati gegnum óþarflega miklar þrengingar í byrjuninni svo þú átt rétt á að seinni hlutinn verði góður og skilji eftir góðar minningar. Ég ráðlegg þér að halda inni næturgjöfinni og jafnvel 2 ef þær bjóðast. Þar fyrir utan skaltu bjóða brjóst snemma að morgni og/eða seint að kvöldi en ekki fara í slagsmál. Ef barnið afþakkar þá stendur það.
Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. júní 2012

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.