Spurt og svarað

21. september 2006

Erfiðleikar með annað brjóstið

Sælar brjóstagjafaráðgjafar!

Ég er að velta fyrir mér einu varðandi brjóstagjöfina. Þannig er mál að vexti að ég er með einn 3ja mánaða eingöngu á brjósti. Gengur allt vel hjá okkur nema það að annað brjóstið er alltaf til vandræða. Í byrjun tók hann báðar vörturnar vitlaust og ég fékk sár og sveppasýkingu og endalausar stíflur. Hann tekur annað brjóstið vel en hitt tekur hann alltaf vitlaust þ.e.vörtuna og sama hvað ég reyni er þetta ekki alveg að ganga. Mér er alltaf hálf illt í vörtunni þegar hann er að sjúga. Hann fær alltaf annað brjóstið í hverri gjöf og hef alveg passað vel að erfiða brjóstið fái jafn mikla örvun og hitt. Það er allavega alveg nóg mjólk í báðum. En málið er að ég er alltaf að fá stíflur í brjóstið og er það orðið frekar þreytandi. Það sem ég er að spá er hvort að ég geti ekki alveg mjólkað bara með annað brjóstið. Nú er hann orðinn svo stór að manni finnst nú að hann ætti að sjúga rétt en það virðist ekki ganga. Mig langar til að vera með hann lengi á brjósti en get ekki hugsað mér þetta lengur.

Með kveðju.


Sæl og blessuð.

Ef þú ert viss um að þú sért búin að gera allt sem þú getur til að fá þetta erfiða brjóst til að virka rétt þá er kannski kominn tími til að breyta til. Ertu búin að fá góða skoðun á þessari vörtu? Ertu búin að fá öll hugsanleg ráð til að koma í veg fyrir stíflur? Ef það virkar ekki er í rauninni ekkert mál að hætta brjóstagjöf á því brjósti. Þú veist líklega að þú gerir það ekki í einu vetfangi. Það er sérstaklega mikilvægt ef þú mjólkar svona vel að trappa niður framleiðsluna rólega á öðru brjóstinu og yfirfæra hana á hitt brjóstið. Þú byrjar á einni ákveðinni gjöf og lætur stöðuna vera þannig í nokkra daga áður en þú tekur til við næstu gjöf. Svona heldurðu áfram koll af kolli.þar til barnið er alfarið komið á eitt brjóst. 

Vona að þetta gangi sem allra best,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.