Spurt og svarað

18. júní 2008

Erfiðleikar við að hætta með tveggj og hálfs árs á brjósti

Komiði sælar!

Mig bráðvantar ráð brjóstagjafaráðgjafa!

Þannig er mál með vexti að ég er með tveggja og hálfs árs son minn enn á brjósti. Hann fær brjóst á kvöldin og morgnana. Þessar stundir virðast vera honum mjög mikils virði. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að leyfa honum að vera lengi á brjósti og var að vona að hann myndi hætta sjálfur fyrir þriggja ára. Nú er ég ólétt og vil gjarnan hvíla brjóstin aðeins. Ég hef lesið mér til um aðferðir til að venja börn á þessum aldri af brjósti, hef reynt að skipta brjóstastundum út fyrir annað eins og lestur góðra bóka, aðra drykki o.fl. Strákurinn heldur bara svo fast í morgun- og > kvöldbrjóstin sín, vill ekki sleppa þeim. Ég hef líka rætt við hann (hann er með góðan málþroska), útskýrt fyrir honum að nú sé hann að verða stór strákur og að þá hætti hann að fá sér brjóst. Hann veit að stóribróðir fékk einu sinni brjóst en ekki lengur, og hann veit að mamma er „með barn í maganum“ og að litla barnið sem kemur þarf brjóstið þegar það fæðist. Málið er að mér reynist erfitt að slíta alveg á brjóstagjöfina, hann sækir hana fast, segist vera lítill og að hann eigi brjóstin. Vaknar meira að segja stundum á nóttunni í örvæntingu og virðist þá vera að dreyma það að hann megi ekki fá brjóst. Hvernig mynduð þið bera ykkur að? Er kannski bara best að vera ákveðin og segja „nú hættum við alveg“? Mér finnst svo erfitt að særa hann en kannski er ég að særa hann meira með því að draga  þetta á langinn og ræða málin við hann?

Góð ráð óskast.

Bestu kveðjur, brjósta-mammaSæl og blessuð brjósta-mamma.

Það getur verið snúið að hætta með barn á þessum aldri sem ekki vill hætta sjálft. Frá náttúrunnar hendi þá eru þau yfirleitt ekki tilbúin á þessum aldri. Það kemur yfirleitt ekki fyrr en eftir 3ja ára afmælið. En ef þú ert búin að taka þessa ákvörðun þá er svo sem ekkert annað að gera en nota aðferðina sem þú stingur sjálf upp á. Hætta bara alveg og taka afleiðingunum. Hann verður sár út í þig í nokkra daga en þú getur alveg sýnt honum væntumþykju á öðrum sviðum. Svo jafnar þetta sig fljótlega. Þetta er alltaf þín ákvörðun með hugsun um heill barnsins í huga.

Gangi þér sem best.    

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. júní 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.