Spurt og svarað

08. september 2006

Erfiður á brjósti á kvöldin og vatnsdrykkja

Ég er með einn 4 mánaða. Brjóstagjöfin er gengið ágætlega og hann hefur eingöngu verið á brjósti hingað til. Um þriggja mánaða aldur þá var augljóst að ég var ekki að gefa honum nóg, að grét mikið á kvöldið og vaknaði oft á nóttinni. Grunur minn var svo staðfestur í 3. mánaða skoðuninni þá hafði hann ekkert þyngst í 2 vikur. Ég tók því upp á því að pumpa mig til að auka framleiðsluna og gefa honum það sem ég náði að pumpa mig yfir daginn. Hann fékk því ábót á kvöldin en ekkert annað en brjóstamjólk. En ekkert breyttist mikið við þetta (skánaði en ekki nóg) hann var þá auðvitað að fá meira formjólk heldur en þessa eftirmjólk (rjómann) sem honum vantaði til að sofa almennilega. Ég keypti þá hjálparbrjóst til að gefa honum ábótina í, þannig að hann fengi bæði ábótina og svo mína mjólk "rjómann". Það dugði mjög vel og allt varð betra. En vandamálið er það að hann er svo rosalega óþolinmóður á brjóstinu á kvöldin, grætur bara og grætur og eins og hann vilji ekki. Þetta vandamál hefur verið í yfir 1 mánuð. Hann vill brjóstið ef hjálparbrjóstið er því þá er flæði. Ég losna sem sé ekki við hjálparbrjóstið þó að núna veit ég að það er nóg af mjólk á kvöldin, hann ætti því ekki að þurfa þetta auka.Ég fæ hann bara ekki til að drekka nema með hjálparbrjóstið á kvöldin. Annars gengur allt vel fyrir utan þetta. Þetta er orðið leiðinlegt, ekki hægt að fá gesti meðan þetta er svona, þó að ég fari yfirleitt afsíðis þegar ég gef honum á kvöldin, reyni að hafa ró en kannski ekki nóg.

Hvenær má gefa börnum vatn að drekka? Einhvern tímann heyrði ég að eftir 6 mánaða aldur þá ættu þau ekki að þurfa að vakna á nóttuni til að drekka þá ætti að gefa þeim vatn um nóttina til að taka af næturdrykkjuna er það rétt?

Kveðja, „Frú vangaveltur“.


Sæl og blessuð „Frú vangaveltur“.

Já, það er margt sem fólk veltir fyrir sér varðandi brjóstagjöfina. Erfitt tímabil á kvöldin er eitt af því sem margir hafa velt vöngum yfir. Af hverju eiga flest brjóstabörn erfitt tímabil á þessum tíma sólarhrings? Rannsóknir hafa sýnt að mjólkurframleiðslan er kannski örlítið minni, en ekki svo að hún geti ekki fullnægt barninu. Rannsóknir hafa líka sýnt að samsetning mjólkurinnar er svolítið öðruvísi á þessum tíma sólarhringsins en þessi samsetning er þó mikilvæg barninu alveg eins og mjólk framleidd á öðrum tímum sólarhringsins. Konur sem eru næst uppruna sínum ef svo má segja virðast finna fyrir þessu óróleikatímabili smávegis en þó virðist það ekki ná að trufla þær að neinu marki. Því er freistandi að álykta að það sé eitthvað í nútímaþjóðfélagi sem gerir þennan tíma efiðari konum en áður var. Miklar kröfur um afköst og viðveru yfir daginn þannig að þreyta og pirringur er farinn að gera vart við sig á þessum tíma. Erill og áreiti hafa áhrif á barnið þannig að jafnvel það sýnir þreytumerki á kvöldin. Lítil þolinmæði og auðvelt aðgengi að skyndilausnum og svo mætti lengi telja. Ráðið hjá þér með að pumpa og gefa með hjálparbrjósti finnst mér mjög sniðugt. Mér finnst það þó bara eiga að vera tímabundið og að nota bara í 1-2 gjafir að kvöldi. Gestirnir geta bara komið á öðrum tímum eða seinna þegar þetta tímabil er yfirstaðið. Talandi um gesti þá er það náttúrlega gefin ástæða fyrir óþarfa spennu og álagi á vondum tíma. Örar skiptigjafir á kvöldin er gamalt og gott ráð sem þú hefur nú sennilega bæði heyrt og reynt. Öll hugsanleg ráð til slökunar ætti að reyna. Þá finnst á endanum yfirleitt eitthvað sem virkar. Mörgum hefur gefist vel að gefa barninu brjóst í baði (Já, þið bæði ofan í vatninu). Ráð til að losna við hjálparbrjóstið er t.d. að mjólka fram flæði áður en lagt er á.  Og að síðustu varðandi vatnsgjöfina þá er það rétt hjá þér að eftir 6 mánaða aldur mega þau alveg fá vatn ef byrjað er að venja þau af brjósti en 6 mánaða börn eru ekkert endilega farin að sofa allar nætur það fer eftir einstaklingum. Það sem er átt við er að þegar 1 brjóstagjöf er tekin út þarf að koma matur og vökvi í staðinn. Ef tekin er út næturgjöf er ekki gefinn matur heldur yfirleitt aðeins boðið vatn. Vona að þú hafir fengið þau svör sem þig vantaði.  

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.