Exem á geirvörtum

11.12.2007

Sælar ljósmæður.

Mig langaði að spyrja um smá ráð.  þannig er mál með vexti að ég greindist með exem á geirvörtum og á að eiga eftir viku. Öll erting á brjóstinu er virkilega vond og ég var að hafa áhyggjur af því  þegar ég fer að gefa barninu brjóst. Húðsjúkdómalæknirinn hafði engin ráð handa mér um hvernig ég geti dregið úr sársauka eða hvað ég ætti að gera. Mig langar að vita hvort að ég sé að lenda í einhverju algeru veseni með brjóstagjöfina áður en hún byrjar eða get ég gert eitthvað til að draga úr sársauka við brjóstagjöfina.


Sæl og blessuð.

Ansi varstu óheppin að lenda í þessu. En ekki örvænta. Það er alveg hægt að vinna bug á þessu. Í mínum huga er mikilvægt að taka á þessu strax svo húðin á vörtubaugunum verði að einhverju leyti búin að jafna sig þegar að fæðingu kemur. Yfirleitt eru notuð sterakrem við exemi á geirvörtubaug alveg eins og öðrum stöðum líkamans og þau virka venjulega fljótt og vel. Ég veit ekki af hverju læknirinn vildi ekki reyna það svo þú þarft að vera viss um ástæðuna. Hvort að það sé eitthvað annað sem mælir á móti því. Ef svo er þarftu að bíða þar til eftir fæðinguna með að byrja meðferð og það er líka hægt. Það verður auðvitað erfitt fyrstu 1-2 dagana en svo ætti það að vera í lagi ef allt gengur vel.          

Með bestu óskum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. desember 2007.