Exem á geirvörtum

14.10.2008

Sælar, og takk fyrir stórfróðlegan vef.

Ég er með 12 vikna gamla dóttur  mína á brjósti, og segi farir mínar ekki sléttar. Hún hefur drukkið vel og þyngst vel frá fæðingu. Ég virðist hins vegar vera með skelfilega  viðkvæmar geirvörtur, fékk á þær blæðandi sár fyrstu dagana sem tók u.þ.b.  5 vikur að græða. Það blæddi svo mikið að blóðlifrarnar gengu upp úr  barninu, kúkurinn var eins og mekonium fyrstu fimm vikurnar, og vaggan var  iðulega ötuð blóði að innan ef hún gubbaði. Við mæðgurnar sigruðumst á  sárunum með hjálp góðra kvenna, eldhúsfilmu og mömmusalva, og allt hefur  gengið vonum framar undanfarnar sjö vikur. Nú er hins vegar farið að kólna  í veðri, og þá er vandamálið komið upp aftur. Ég fæ alltaf mikið kuldaexem  á haustin, bæði á hendurnar og á varirnar, og nú er eins og exemið hafi  lagst á geirvörturnar. Þær eru bleikar og sárar, upphleyptar og blæðandi,  og ég trúi því eiginlega ekki að ég þurfi að ganga í gegnum þetta  sársaukavíti aftur. Mér skilst að eina leiðin til að græða exemið séu  sterakrem, sem ég vil að sjálfsögðu ekki bjóða dóttur minni upp á. Til að  bæta gráu ofan á svart er eins og dóttir mín sé að hafna brjóstinu, hún  vill alls ekki drekka úr öðru brjóstinu, og slítur sig sífellt öskrandi af  hinu. Undanfarna daga hef ég þurft að mjólka mig og gefa henni þannig -  sem er að vísu kærkomin hvíld fyrir geirvörturnar, en virðist ekki duga  til að græða þær. Ég er eiginlega við það að gefast upp á þessari  vitleysu - er eitthvað hægt að gera annað en að bíta á jaxlinn og blæða  til vors, eða hætta með barnið á brjósti?

Bestu kveðjur.


 

Sæl og blessuð.

Það er mjög slæmt að lenda í svo miklum vandræðum vegna sárra varta því það gerir gjafir mjög sársaukafullar.

Það er í raun ekkert því til fyrirstöðu að nota sterakrem í brjóstagjöf og er eitt af þessum gömlu bannorðum sem eru dottin út. Það þarf að viðhafa vissa varkárni til að koma í veg fyrir að kremið fari í miklu mæli til barnanna. Það er í raun bara gert með því að bera kremið eftir gjöf og láta það vera í friði í 20-30 mínútur. Ef barnið verður að drekka áður en þessi tími er liðinn verður að þvo kremið vandlega af áður, gefa og bera svo á aftur.

Það getur hjálpað með öskurtímann hjá henni að stytta gjafirnar. Ef hún slítur sig af og öskrar þá er gjöf lokið.

Gangi þér vel.   

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
14. október 2008.