Exem og brjóstagjöf

07.08.2006

Kæru ljósmæður og brjóstagjafaráðgjafar, takk fyrir allar hagnýtu upplýsingarnar og hjálpina sem er að finna á þessum vef.

Ég er með 8 mánaða gamla dóttur mína á brjósti en hún hefur þó fengið grauta frá því hún var 6 mánaða.  Ég er staðráðin í að halda brjóstagjöfinni áfram svo lengi sem vel gengur en eldri dætur mínar tvær voru báðar rúmt ár á brjósti en þessa vil ég jafnvel hafa enn lengur. Ég hef alltaf verið með exem en það byrjaði sem barnaexem en lagaðist og hvarf jafnvel alveg með aldrinum. Helst að ég hafi fengið útbrot á álagstímum.  Núna er ég virkilega slæm og er að hugsa um hvort það tengist brjóstagjöfinni. Dóttir mín er greinilega með álíka húð og m.a þess vegna vil ég hafa hana lengi á brjósti en hinar tvær hafa að mestu verið lausar við þennan kvilla.
Rútínan hefur riðlast sökum ferðalaga í sumar og hún vanist aftur á fleiri næturgjafir sem aftur truflar minn svefn sem bitnar á húðinni. Ég er alsett exeminu. Ég er búsett erlendis og sólin virðist æsa exemið enn upp og það sama virðist eiga um hana. Eigið þið ráð fyrir mig?  Eitthvað sem ég get gert til að bæta ástandið og halda þannig brjóstagjöfinni áfram? Gengur brjóstagjöfinni nærri konum eftir því sem þær eldast? Er aukin hætta á exemi eða ofþurrkun húðar á meðan að brjóstagjöf stendur?  Hversu mikilvæg er brjóstagjöf stálpuðum börnum sem eru að þróa með sér exem?

Með góðri kveðju og fyrirfram þökk,


Rósa
Sæl og blessuð Rósa.

Það má segja að það sé sammerkt húðkvillum að þeir séu í miklu lágmarki á meðgöngunni. Þeir hins vegar fara að gera vart við sig fljótlega í brjóstagjöf og geta verið ansi slæmir ef þeir ná sér á strik. Þannig að svarið við spurningunni er: Já, það er aukin hætta á exemi í brjóstagjöf.  Ráð fyrir þig eru þá helst að taka á exeminu með öllum tiltækum ráðum. Öll exem krem eru í lagi í brjóstagjöf sérstaklega ef ekki þarf að bera á geirvörturnar. Sterar til inntöku eru líka í lagi til að laga exem. Vertu bara undir eftirliti húðlæknisins þíns.
Nei, brjóstagjöfin gengur ekki nærri konum þótt þær eldist.En það er erfitt að svara síðustu spurningu þinni. Flest bendir þó til að löng brjóstagjöf þýði meiri vernd fyrir barnið.
   
Með von um að þetta hjálpi eitthvað.               
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
07.08.2006.