Eymsli í geirvörtum á meðgöngu

11.07.2010

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

 Ég er komin 29 vikur á leið með annað barn og er strax orðin mjög viðkvæm og aum í geirvörtunum. Brjóstagjöfin gekk vel með seinasta barn fyrir utan eymsli fyrsta mánuðinn. Mér finnst meiri segja óþægilegt þegar ég er í sturtu að fá vatnsbununa á mig. Hvað er best að gera til að mýkja þær upp og reyna að koma í veg fyrir að ég verði mjög aum í byrjun næstu brjóstagjafar?

Kveðja, Sandy.

 


Sæl og blessuð Sandy.

Það er ekki alveg hægt að líta sömu augum á eymsli í vörtum fyrir og eftir fæðingu. Fyrir fæðingu eru breytingar í vef vörtunnar sem gerir þær viðkvæmar og aumar. Besta ráðið við því er að hafa eitthvað mjúkt við þær svo þær nuddist ekki við föt eða ertist. Það er í raun ekkert sem þú getur gert til að koma í veg fyrir eymsli eftir fæðingu. Endilega skaltu ekki bera á þig nein krem. Eftir fæðinguna eru þessi eymsli að ganga yfir fyrstu dagana en svo á það að vera búið. Ef eymsli halda áfram eftir þann tíma er trúlegt að barnið sé ekki að taka rétt utan um vörtuna. Það á að laga strax og við verður komið.
Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. júlí 2010.