Eyrnabólga hjá ungbarni

28.11.2010
Þannig er að litla stelpan mín reynist vera með eyrnabólgu fyrir tæpri viku þá 5 vikna gömul. Hún hefur eingöngu fengið brjóstamjólk. Hún fæddist 16 merkur og hefur þyngst vel. Við höfum ekki farið með hana neitt nema til afa og ömmu í upphituðum bíl. Við fórum í göngutúra í vagninum en þá bara stutt 2x. Nú velti ég mér fyrir mér hvernig þetta getur hafa gerst að svona ungt barn fái eyrnabólgu. Ég kenni mér að sjálfsögðu um. Hún fór á sýklalyf þar sem hún fékk hita í upphafi sem hvarf fljótt. Er eitthvað sem við foreldrarnir gerðum sem gæti hafa valdið þessu? Hér er handþvottur og sprittun mikið mál. Hún á reyndar frænkur og frændur á leikskólaaldri sem hafa nálgast hana en ekkert óeðlilega mikið. Hún er öll að ná sér en nú veltir maður fyrir sér hvort við getum farið með hana eitthvað út úr húsi meðal fólks eða getum haldið skírnina með öllum þeim gestagangi sem tilheyrir. Ætti maður að bíða með allt þetta fram yfir 3 mánaða aldurinn þegar hún fær fyrstu bólusetningar (við ætlum að biðja um eyrnabólgubólusetningu). Er manni óhætt að pínu á flakk með hana eftir sýklalyfjakúrinn eða er hún útsettari fyrir frekari pestum. Hvenær er ónæmiskerfi svona krílis tilbúið í meira samneyti við fólk og ferðir í búðir og annað slíkt? Einnig langar mig að spyrja hversu lengi tekur fyrir þarmaflóru svona brjóstabarns að jafna sig eftir sýklalyfjagjöf og hvort hætta er á síðbúnum meltingarvandamálum þegar ungbörn fá sýklalyf þetta snemma. Enn sem komið er gengur allt vel en reyndar dálítið þunnfljótandi sprengjuhægðir en virðast ekki angra hana mikið.Takk fyrir góðan og hjálplegan vef.
Mía.
 
Sæl og blessuð Mía!
Það er auðvitað aldrei svo að brjóstagjöfin komi í veg fyrir að börn veikist af umgangspestum. Hún dregur hins vegar verulega úr líkunum á að börn veikist svona ung og einnig gerir hún það að verkum að börn sem samt veikjast fá veikina vægari en ella. Þú ert eflaust að gera allt rétt og það sama sem fólk gerir venjulega til að draga úr frekari líkum á að barnið veikist, með hreinlæti og öðrum varnaraðgerðum. En þú getur aldrei komið í veg fyrir það. Bakteríur eru allt í kringum okkur og ógerningur að ráða við það. Það er heldur ekki einu sinni æskilegt. Því það er jú styrkjandi fyrir ónæmiskerfið að kynnast bakteríum og læra að ráða við þær. Það má segja að það sé af hinu góða að börn kynnist ákveðnum fjölda sýkla einmitt á meðan þau eru á brjósti og hafa þess vegna betri vörn en þegar henni lýkur. Þannig að ég mæli með því að þið fari í göngutúra og hittið fólk í eðlilegu hófi. Síðan eflist ónæmiskerfið smám saman og 6 mánaða er það orðið talsvert vel virkt. Varðandi meltinguna þá eru mestu áhrifin á fyrstu dögunum eftir að lyfjatöku lýkur en öll áhrif ættu að vera horfin u.þ.b. 2 vikum seinna.
Vona að þér gangi svona vel áfram.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. nóvember 2010.