Spurt og svarað

26. október 2004

Fær barnið nóg?

Góðan daginn og takk fyrir góðan vef! Ég hef sent áður og var rosalega sátt við svarið sem ég fékk. Núna er ég að velta fyrir mér með brjóstagjöfina. Ég var að eignast mitt 3 barn og hin 2 fengu ekki nóg eða ég þurfti að gefa þeim pela með brjóstagjöf. Veit ekki hvort að ég hafi verið of lin þá og gefið þeim ábót eða hvað. En núna er ég búin svo mikið að þrá að gefa þessu barni bara brjóstamjólk að þetta liggur rosalega á sálinni á mér. En hvernig veit ég hvort að barnið sé nógu satt? Stundum er hann alveg sjúgandi puttana á sér og bara allt sem hann kemst í snertingu við alveg eins og hann sé að deyja úr hungri en samt er hann rosalega rólegur og góður sefur oftast vel og já er bara ofsalega rólegt og gott barn en stundum finnst mér eins og hann fái ekki nóg, hann byrjar að sjúga og virðist fá eitthvað svona fyrst (það er þá ef hann er búin að fá oft brjóst með stuttu millibili) en svo er eins og hann hætti að sjúga og sofni bara og vakni svo aftur eftir smá stund. Mér finnst líka eins og hann fái minna á kvöldin en á morgnana og daginn. Vona að þetta sé ekki voðalega ruglingslegt. Ég er svo hrædd um að hann sé svangur en hann pissar vel og kúkar og allt það saman. Ég get ekki hætt að hugsa um þetta ;)

Vona að þið eigið einhver góð ráð handa mér eða eitthvað gott svar ;) drengurinn er orðin 12 daga gamall.

Kveðja María.

Sæl og blessuð María.

Þú ert búin að þrá eina brjóstagjöf sem er eingöngu brjóstagjöf og núna færðu hana. Til hamingju.
Þú veist aldrei hvort barnið er NÓGU satt. Þegar barnið er búið að drekka einhverjar nokkrar mínútur, hætt og virðist ekki spennt fyrir meiru. Þá er það satt.

Barn sem sýgur putta sína af mikilli áfergju og hvað sem fyrir verður vill sjúga brjóst. Það þarf 8-12 gjafir á sólarhring.

Barnið sem þú lýsir sem er rólegt og gott og sefur oftast vel, það fær næga næringu. Ef hann virðist stundum ekki fá nóg þá er það allt í lagi. Þá er bara styttra í næstu gjöf og þá bætir hann sér upp það sem á vantar.

Vertu viss um að þú þekkir sogmynstrið hans. Hann á að byrja vel, sjúga ört og stoppa stutt í fyrstu 5-10 mín. Síðan verða sogin færri, stoppin lengri og augun lokast oft seinni hluta gjafarinnar. Ef barnið steinsofnar í miðri gjöf á að taka það af brjósti.

Já, það er minni mjólk í brjóstum á kvöldin á hverri einustu konu en hún er líka feitari á kvöldin. Oft eru gjafirnar þá styttri og gjarnan er skipt oftar um brjóst í gjöfinni.

Ekki vera hrædd um að hann sé svangur. Reyndu að skerpa næmni þína fyrir því sem hann er að reyna að segja þér með sinni líkamstjáningu og hljóðum og hann mun aldrei verða svangur lengi. Piss og kúkur eru góð merki um næga næringu.  Viðmiðið er að barnið bleyti 6 bleyjur á sólarhring og þegar farið verður að vigta barnið er miðað við að það þyngist um 110 gr. á viku. Brjóstabörn eru reyndar skæð með að gera allt í sveiflum. Stundum lítið og stundum mikið.

Reyndu að finna einhvern kæruleysisþátt í þér og smelltu honum inn í brjóstagjöfina. Þá gengur betur. Þetta verður svo erfitt ef maður fer að taka þetta óskaplega alvarlega og hafa áhyggjur daga og nætur. Þá nær maður heldur ekki að njóta þess.

Fullviss um að vel gangi þessa brjóstagjöf.

Kveðja, Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.
Yfirfarið í júní 2020

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.