Spurt og svarað

06. janúar 2005

Fæðingarþunglyndi og brjóstagjöf

Mig langar að fá smá ráðgjöf varðandi brjóstagjöf og þunglyndi. Ég hef verið að glíma við þunglyndi í nokkurn tíma núna og á meðgöngunni lenti ég í nokkrum svakalegum áföllum og var mjög langt niðri. Nú er litli fæddur og er 5 vikna en mér líður bara enn verr. Ég er komin á lyfið Zoloft þar sem ég var hætt að sofna vegna kvíða og vanlíðan. Mér finnst brjóstagjöfin rosalega þvingandi. Ég hef stanslausar áhyggjur að hann fái ekki nóg, hann á frekar erfitt með að ná vörtunni þar sem ég er með frekar stór brjóst og er þetta því oft mjög óþægilegt, svo ekki sé minnst á sektarkenndina þegar hann grætur og ég er viss um að það var eitthvað sem ég borðaði.

Hann þyngdist hægt fyrst og fær því ábót eða einn pela á dag. Hann er líka með mjólkuróþol svo ég má varla neitt borða og veldur það því að ég borða sama og ekki neitt. Ég hugsa um það á hverjum degi að færa hann yfir á pela en fyllist svo af samviskubiti yfir því að vera þá slæm móðir. Ef hann væri á pela gæti ég líka þegið þá hjálp sem mér býðst og þannig fengið meiri tíma til að ná heilsunni og fengið meiri svefn. Hann er búinn að vera frekar óvær síðan hann fæddist og ég er ein með hann.

Hvort er mikilvægara að hann fái brjóstamjólkina lengur og ég bíti bara á jaxlinn eða ég seti hann á pela og fari á fullt að reyna að ná mér. Ég er að tengjast honum en finnst þetta allt mjög erfitt og verð mjög leið oft þegar ég er að gefa honum.

Afsakaðu langt bréf. Með von um smá hjálp.

.........................................................................

Sæl og blessuð.

Það er alltaf erfitt að takast á við þunglyndi og ef barnsburður bætist við er erfiðið enn meira. Þetta eru tveir ólíkir viðburðir sem eru erfiðir öllum sem þurfa að upplifa þá. Þar með er ekki sagt að ef hægt sé að taka annan burt þá hverfi báðir. Það þarf að vinna í að reyna að létta báða þætti eins og kostur er.

Þú ert komin á lyf sem er mjög gott og vonandi ertu á nógu stórum skömmtum til að það hafi góð áhrif. Það á ekki að spara skammtana barnsins vegna. Það er til hagsbóta fyrir barnið að mamma sé nógu hress til að geta uppfyllt grunnþarfir þess.

Mér þykir auðvitað leitt að heyra að þér sé brjóstagjöfin svo erfið. Flestum konum með þunglyndi sem talað hafa við mig hefur fundist brjóstagjöfin hjálpa sér í gegnum þunglyndið og oft á tíðum vera það eina sem þeim fannst þær geta gert af viti fyrir annan einstakling. En sumum konum finnst brjóstagjöfin bindandi og þrúgandi og betra að sleppa henni. Og stundum þegar illa gengur er vissulega betra að sleppa henni. En það er rétt að hafa í huga að kannski er það að hætta brjóstagjöfinni ekki sú lausn og sá léttir sem þú átt von á.
Grunnþarfir ungbarna eru ekki flóknar. Þær eru helstar:

  • Nærvera við móður
  • Næring
  • Þrif á úrgangi
  • Passlegt hitastig

Þannig að breyting á næringarformi léttir ekkert á hinum þáttunum. Þú segist vera farin að tengjast barninu og þar með ertu að ná tökum á mikilvægasta hlutanum af umönnuninni. Þ.e.a.s nærverunni. Þú segist hafa áhyggjur af að barnið fái ekki nóg. Þú ert ekki ein um það. Það hafa allar mæður áhyggjur af því. Það fylgir móðurhlutverkinu og hefur ekkert með þunglyndi að gera. Þú segist fá sektarkennd þegar barnið grætur af því að það sé vegna einhvers sem þú borðaðir svo þú borðar mjög lítið. Það er auðvitað ekki sniðugt að þú borðir of lítið. Þú þarft næringu til að halda kröftum. Oft er betra að borða lítið í einu og oft, en þú mátt svo sem hafa það eins og þú vilt. Og ekki vera að tína út fæðutegundir sem eru hollar og næringarríkar. Þú þarft á þeim að halda. Það er góð og gild regla að það sem fer vel í þinn maga það fer vel í maga barnsins.

Þú skalt endilega þiggja þá aðstoð sem býðst. Virkjaðu aðstoðina í þrifin. Þetta fólk hlýtur að geta skipt á barninu og baðað það og þvegið þvotta. Klæða barnið og fylgjast með því að því sé hvorki of kalt eða of heitt og nærveran getur líka komið frá öðrum en móður. Öllum börnum finnst gott að láta halda á sér, rugga sér eða fara í gönguferð í vagni. Svo væri fínt að fá þrif á íbúðinni, eldun á mat, sendiferðir o.s.frv.

Þú talar um tímaskort. Eða eins og ég skil þetta þá vanti þig meiri tíma til að ná þér. Þá er brjóstagjöfin betri kostur því hún sparar tíma. Brjóstagjöf tekur tíma en pelagjöf tekur lengri tíma. Ertu viss um að aðstoðin þín sé tilbúin að blanda þurrmjólkina, þrífa eftir sig, hita mjólkina í rétt hitastig, gefa hana og líka skola pelann á eftir og svo sótthreinsa pelana og tútturnar? Og hvað með næturnar?

Ég held að það sé mikilvægt fyrir þig að reyna að vega og meta allar aðstæður eins hlutlaust og þú getur og velja þann kostinn sem þú heldur að sé besta lausnin fyrir þig og barnið. Það sem er mikilvægast er velferð þín og barnsins. Þú þarft bara að hafa augun opin ef þú ætlar að gera stórar breytingar og vera viss um að breytingin sé til batnaðar.

Með von um að þetta hafi eitthvað hjálpað.

Kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. janúar 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.