Spurt og svarað

05. nóvember 2007

Fæðubótaefni og vítamín með brjóstagjöf

Er með einn tæplega 7 mánaða sem er rétt nýlega farinn að borða, hefur annars verið eingöngu á brjósti. Hann borðar voða lítið og því er brjóstið hans aðalfæða ennþá og vonandi áfram. Ég er aftur á móti alveg eins og undin tuska. Hvort sem það er bara hausthúmið eða brjóstgjöfin eða bæði sem tekur alla mína orku þá var ég að spá í hvort ég geti nú ekki bætt þetta með e.t.v. inntöku vítamína og bætiefna eins og Spirulína eða Rosenrot. Ég á eldra barn og þarf því aðeins að bústa upp orkuna til að takast á við krílin mín :)
Mataræði mitt er mjög fjölbreytt og hollt (lítið unninn mat, kjöt, fisk,  grænmeti, ávexti, korn og hollar olíur) og ég borða oft og vel, fer reglulega út í gönguferðir (ríf mig upp á hnakkadrambinu) og líður vel, ég er bara svo orkulaus. Ég fæ auk þess nokkuð góðan svefn eða í alveg 6-7 tíma í einni lotu. Þætti vænt um að fá svar frá ykkur um þessi efni eða e.t.v. eitthvað sem  þið getið ráðlagt, þar sem ég stefni á langa brjóstgjöf og væri alveg til í örlítið meiri orku svo ég þurfi ekki að vera að pína mig áfram.

Kær kveðja, orkulausa mamman.

Þakklát fyrir þennan vef, hefði örugglega ekki haft orku í að leita lengra en á netið eftir aðstoð :)


Sæl og blessuð.

Já, þér er óhætt að prófa þig áfram með vítamín og fæðubótarefni til að reyna að hressa þig við. Passaðu alltaf að taka ekki inn of mikið af efnum sem líkaminn er ekki góður í að losa sig við eins og fituleysanleg vítamín. Annars sýnist mér þú vera að gera ýmislegt. Gott fæði er undirstaðan og ef það er í lagi þá kemur hitt venjulega með tímanum. Ef þú hefur megrast mikið gæti hjálpað að fara meira í eitthvað orkuríkt. Ég er í sjálfu sér ekki með neinar töfralausnir á takteinum en eins og ég segi prófaðu það sem þú heldur að geti hjálpað þér og láttu alltaf líða 1-2 vikur áður en þú dæmir árangurinn.

Með hressandi kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. nóvember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.