Spurt og svarað

28. janúar 2005

Fæðubótarefni og brjóstagjöf

Halló og takk fyrir góða síðu.

Mig langar svo að spyrja þar sem ég er með 6 mánaða barn á brjósti og er að stunda líkamsrækt hvort ég megi taka fæðubótarefni eins og hreint kreatín og efni sem heitir CLA 80 og er frá EAS.  Ráðgjafi benti mér á þetta og sagði það í lagi þrátt fyrir brjóstagjöfina en á staukunum er tekið fram að það sé ekki í lagi á meðgöngu og á brjóstagjöf! (veit nefnilega ekki hvort svona viðvaranir séu á öllum vörum svona til að forðast málsóknir eða hvort það sé ástæða fyrir þeim). Hvað segið þið um málið á ég að láta þetta eiga sig fram yfir brjóstagjöfina eða er þetta í lagi?

Með fyrirfram þökk.

......................................................................

Sæl og blessuð.

Þessi efni eru í venjulegu fæði íslendinga í því magni sem nauðsynlegt er. Ég veit að sumir eru á þeirri skoðun að ofgnótt sumra efna séu að einhverju leyti holl eða geri eitthvað sérstakt fyrir þá og það er hlutur sem erfitt er að sanna eða afsanna. Það er að vissu leyti rétt hjá ráðgjafa þínum að varúðarorð eru sett utan á flestar pakkningar til að firra fyrirtæki allri ábyrgð og þar að auki er yfirleitt það sama látið gilda um meðgöngu og brjóstagjöf þótt þar sé verulegur munur á. Þegar svona viðvaranir eru svona algengar er að sjálfsögðu erfitt að fiska úr hvað er rétt og satt og hvað ekki. Almenna reglan er að efni þurfi að vera verulega eitruð eða skaðleg og þar að auki að eiga greiðan aðgang yfir í mjólk til að hafa slæm áhrif á barn. Sum efni eru aukaefni og snefilefni þ.e.a.s. þau þurfa að vera í mjög litlu magni í líkamanum. Sum þeirra geta verið skaðleg ef þau eru innbyrt í miklu magni. Líkaminn er þó þeirrar náttúru að sigta úr hvaða efni eiga að fara yfir í mjólkina og í hvaða magni. Það miðast meira við hver er þörf barnsins en ekki hvert hlutfall efnanna er í líkama móðurinnar.

Að þessu öllu sögðu myndi ég ráðleggja þér að bíða með kröftug fæðubótarefni þar til brjóstagjöf lýkur bara til að vera alveg viss en ekki af því ég haldi að þau séu skaðleg.

Með hreystikveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. janúar 2005.





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.