Spurt og svarað

24. júlí 2005

Feit eða þunn brjóstamjólk

Ég hef verið að velta nokkru fyrir mér. Sumar konur tala um að vera með svo svakalega feita mjólk að börnin verða eins og „michelin maðurinn“ og aðrar virðast vera með þunna mjólk og börnin verða til tölulega meðal í kúrfunni.

Síðan var ég að velta fyrir mér hvort konur sem eru með svona feita mjólk verði grennri en þær konur sem eru með þunna mjólk. Er þetta rétt of af hverju stafar þetta?

.................................................................................

Sæl og blessuð.

Þetta er flóknari spurning hjá þér en virðist í fljótu bragði. En góð spurning og nauðsynleg.
Fitumagn í brjóstamjólk er afar breytilegt svo vægt sé til orða tekið.

  1. Í hverri gjöf. Fitumagn í hverri gjöf er breytilegt. Þ.e.a.s formjólkin sem rennur fyrstu mínúturnar er mjög fitusnauð en eftirmjólkin sem kemur seinna í gjöfinni er mun fituríkari. Eftir því sem lengra líður á gjöfina því fitumeiri verður mjólkin. Þannig að mjólk sem barnið er að drekka á 15 mínútu eftir að gjöf hefst er fituminni en mjólk sem barnið drekkur á 25 mínútu eftir að gjöf hefst. Mikið byggist líka á hversu gott grip barnið hefur á geirvörtunni þar sem barn með lélegt grip er í meiri vandræðum að ná feitu mjólkinni en barn með gott grip.
  2. Á sólarhringnum. Fitumagn mjólkur breytist eftir því hvenær sólarhringsins barnið er að drekka. Fituríkust er mjólkin á nóttunni og fyrri hluta dags en rýrust seinni hluta sólarhringsins.
  3. Milli daga. Samkvæmt mælingum er fitumagn brjóstamjólkur breytilegt milli daga hjá sömu konunni. Líklegt má telja að þar spili inn í almenn líðan og ástand konunnar og að einhverju leyti mataræði.
  4. Á brjóstagjafatímabilinu. Fitumagn brjóstamjólkur breytist á löngum tíma. Fituinnihald er hæst á fyrstu vikum brjóstagjafar en dalar á seinni mánuðum fyrsta ársins í samræmi við breyttar þarfir barnsins.

Það er líka misjafnt milli einstakra barna hvernig þeim tekst að melta innihald brjóstamjólkurinnar og það er líka misjafnt hjá þeim frá einum tíma til annars hvernig melting gengur.

Það er rétt að einstaka brjóstabarn getur orðið afar feitt en það er ekki vegna þess að mjólk móðurinn sé óvenjulega feit heldur er ástæðan sambland margra þátta. Og það eru ekki til konur með „þunna mjólk“. Það er hins vegar algengast að börn sem eingöngu eru á brjósti séu tiltölulega grönn og spengileg. Og varðandi seinni spurninguna þá eru konur með mjög feit brjóstabörn bæði til feitar og grannar og það virðist ekki koma við holdafari barna þeirra eða mjólkursamsetningu á neinn hátt.

Með von um að málið hafi skýrst eitthvað.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
24. júlí 2005.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.