Spurt og svarað

21. nóvember 2006

Ferðalag frá brjóstabarni

Í byrjun janúar n.k. þarf ég að skilja son minn eftir heima á Íslandi meðan ég fer erlendis í 12 daga. Hann verður þá 10 mánaða gamall. Ég er farin að hafa af þessu nokkrar áhyggjur þar sem hann er ennþá (nú 8
mánaða) mjög mikið á brjósti og þannig viljum við eflaust bæði hafa það sem lengst. Ég hef alls ekki hugsað mér að hætta með hann á brjósti í janúar, vill helst mjólka mig úti og bjóða honum aftur þegar ég kem heim (langar a.m.k. að reyna það). Í dag fær hann brjóstið u.þ.b. 6-8 sinnum á sólarhring; áður en hann sofnar á kvöldin, 1-3 sinnum yfir nótt, þegar hann vaknar á morgnana, áður en hann fer út í vagn, og líka seinni part dags eða snemma kvölds. Auk þess fær hann sér stundum sopa ef hann er vansæll einhverra hluta vegna (tanntaka t.d.). Hann borðar 3 máltíðir á dag og gengur það orðið ágætlega núna, hann dafnar vel, heldur sinni kúrfu og er vær og glaður strákur. Mig langar að spyrja: Hve lengi get ég dregið það að fækka gjöfunum og hvað þarf ég að vera komin niður í fáar gjafir á dag þegar ég skil hann eftir? Ég hef ekki áhyggjur af brjóstunum í þessu sambandi því ég vil gjarnan mjólka mig og halda þessu við heldur hef ég áhyggjur af litla manninum mínum sem eðli málsins samkvæmt er ekki vanur að drekka mikið annað en brjóstamjólk.

Með kærri þökk fyrir dásamlegan vef, þið eruð svo sannarlega hjálplegar konur :+)

Kveðja Þórunn.


Sælar!

Það er erfitt að svara þessu. 

Það er alveg spurning hvort þú þarft að fækka gjöfunum áður en þú ferð en aðallega kannski að draga úr næturgjöfunum, sem er í lagi núna þar sem hann er orðin 10 mánaða og þyngist vel þá finnur hann minna fyrir því að mamma er ekki heima - en yfir daginn að úr því hann er farinn að borða því þá vilja börnin oft drekka vatn líka. Kannski vill hana stoðmjólkina þegar mamma er ekki nálægt. Þú getur mjaltað þig úti og viðhaldið þannig mjólkinni. En ef þú ætlar að minnka eða fækka gjöfum - þá endilega bara um eina í einu og í talsvert marga daga - alltaf að gera það rólega - þá finnur hann minna fyrir því og þú líka.

Sjá einnig umfjöllum í Brjóstakornum í pistli sem heitir Róleg afvenjun hér á síðunni.

Gangi þér vel og góða ferð.

Með bestu kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
21. nóvember 2006.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.