Fiskur og brjóstagjöf

22.02.2005

Ég er með son minn rúmlega þriggja mánaða á brjósti (eingöngu). Hann er yfirleitt mjög vær og góður en einn og einn dag er hann voða pirraður og ergilegur, sefur stutt og er þá órólegri en allajafna. Eina sem ég hef fundið sameiginlegt með þessum dögum er að daginn áður hef ég borðað fisk, bara venjulega ýsu. Getur verið að hún fari svona í hann? Getur hann verið með einhvers konar óþol eða ofnæmi?

Takk fyrir góðan vef.

..............................................................................

Sæl og blessuð.

Það er eins og ég hef áður komið inn á afar,afar sjaldgæft að börn hafi óþol fyrir efnum í mjólk móður sinnar. Þó skyldi maður aldrei segja aldrei og það eru þekkt dæmi um það. Þá er í flestum tilfellum sterk saga óþols eða ofnæmis hjá öðru hverju eða báðum foreldrum og einnig er í flestum tilfellum um sterka ofnæmisvalda að ræða.
Fiskur hefur alltaf verið talinn með meinlausari fæðu en eggjahvítuefni hans geta þó einstaka sinnum valdið ofnæmi en það er þá við beina snertingu eða át. Ég hef ekki heyrt talað um það gegnum mjólk enda þannig eggjahvítuefni um að ræða. Mér sýnist einfalt fyrir þig að prófa að sleppa fiski í 2-3 vikur og sjá hvort "órólegir" dagar hætti þá að koma.
Það er hins vegar ekki óþekkt að börn eigi sína "erfiðu" daga og flokkast frekar sem partur af lífinu alveg eins og hjá okkur fullorðnum. Gefðu syni þínum mikla ást, umhyggju og þolinmæði á "erfiðu" dögunum og það borgar sig til baka.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. febrúar 2005.