Fita á börnum

01.08.2009

Hæ hæ og takk æðislega fyrir þennan vef!

Þannig er mál með vexti að ég eignaðist stelpu í maí og var hún 18 merkur og 55cm. Fyrir á ég stelpu sem verður tveggja ára í nóvember. Yngri stelpan mín er orðin 63,5cm og 7,2 kíló og notar föt nr. 72. Mér finnst hún bara rosalega heilbrigð og stór. Hún er vær og sefur tíu tíma á nóttunni(hún er pelabarn). Um daginn fór ég í ungbarnaskoðun og konan sem tók á móti okkur var að leysa vanalegu hjúkkuna af. Hún fór að vera með meiningar um að hún væri alltof þung og hún vildi ekki sjá hana þyngjast meira. Persónulega finnst mér þetta óvarlega sagt og sef varla út af þessu. Frænkur mínar sem eiga frá þrem upp í átta börn hlæja og segja að þetta eigi eftir að renna af henni. Eldri stelpan mín var rosalega búttuð en er engan veginn feit í dag. Mér langar að spyrja hvort eitthvað sé hægt að gera í þessu eða á ég að hætta að hafa áhyggjur. Hún er rosalega vær og góð?

Takk fyrir.

 


Sæl og blessuð!

Það er gott að barnið þroskast vel. Hjúkkan sem þú hittir hefur hugsanlega haft áyggjur af að barnið þyngdist of hratt. Börn þyngjast oft í sveiflum og ef það hefur verið uppsveifla núna þá má búast við að það jafni sig aftur. Það gerist gjarnan þegar börn fara að hreyfa sig meira. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur. Það sem þú getur gert er að passa að troða ekki meiru í barnið en það vill. Ef hún vill hætta eða snýr sér frá þá er máltíðinni lokið. Svo passarðu auðvitað að blanda mjólkina rétt. Annars áttu bara að njóta þess að eiga hrausta og fína stúlku.

Bestu kveðjur.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. ágúst 2009.