Spurt og svarað

12. september 2006

Fjólubláar vörtur og gulgrænn vökvi

Sælar og takk fyrir góðan vef sem hefur nýst mér mjög mikið.

Stelpan mín hætti á brjóstinu fyrir tveim mánuðum eftir 7 mánaða gjafir. Geirvörturnar á mér eru búnar að vera mjög fjólubláar, næstum svartar, eftir brjóstagjöfina en þær voru bara venjulega húðlitaðar áður. Svo núna fyrir viku prófaði ég að kreista aðeins brjóstið því það var svolítill þrýstingur í brjóstunum og þá kom frekar ógeðslegur gulgrænn vökvi út úr þeim. Þetta fór frekar fyrir brjóstið á mér og ég er með áhyggjur af þessu. Er þetta eðlilegt eða á ég að láta kíkja á brjóstin á mér? Það gekk vel að hætta með hana, mjólkin minnkaði smátt og smátt. Ég fór að vinna og svo hreinlega vandi hún sig af sjálf, hætti að vilja og beit mig bara. Ég fékk engan stálma eða þrýsting í brjóstin og þurfti ekkert að mjólka mig þegar hún hætti.

Ég þakka fyrirfram.

Kveðja, Lilla.Sæl og blessuð Lilla.

Mér finnst ótrúlegt að þú þurfir nokkrar áhyggjur af þessu. Það eru ákveðnar skýringar á þessu fyrirbæri sem ég útskýrði nokkuð vandlega í nýlegu svari við fyrirspurn. Þ.e.a.s. skýringar á vökvanum sem hægt er að kreista úr brjóstum löngu eftir að brjóstagjöf lýkur. Varðandi litinn á vörtunum þá er ég ekki alveg viss um hverju þú ert að lýsa, ég yrði að sjá það. Ég ráðlegg þér að fá skoðun hjá lækni fyrst þú ert svona ósátt við þetta. Þér myndi líða betur við það. Best væri ef læknirinn hefði sértaklega unnið með konum og/eða kvensjúkdóma þannig að hann hefði góða reynslu af brjóstavandamálum.  Gangi þér vel.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. september 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.