Fljótari að drekka úr öðru brjóstinu

18.09.2006

Hæ og takk fyrir frábæran vef!

Ég er með einn tveggja mánaða sem er eingöngu á brjósti. Síðast liðinn mánuð er hann mjög fljótur að drekka úr öðru brjóstinu en getur verið endalaust á hinu, 5-10 mínútur á öðru og 15-25 mín á hinu.  Hann virðist vera jafn sáttur við bæði brjóstin nema kannski á kvöldin þegar hann drekkur úr brjóstinu sem hann er fljótari. Eins og hann vilji vera lengur á því en er sáttur þegar hann er reistur upp og lagður á teppi. Mín spurning er hvort þetta sé eðlilegt eða er minna í brjóstinu.  Geirvörturnar á mér eru mjög ólíkar og hann hefur þyngst vel.

Kveðja, Hrefna.


Sæl og blessuð Hrefna.

Það getur verið alveg eðlileg líffræðileg skýring á þessu. Það er smávægilegur munur á vídd útfærsluganganna sem liggja í gegnum vörtuna. Þetta truflar svo sem ekkert, sérstaklega ekki ef barnið er eins gott og þitt og fara ekki að taka annað brjóstið fram yfir hitt. Þessi munur getur jafnast út að einhverju leyti með auknum aldri og styrk barnsins. En aðalatriðið er að þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af. Á kvöldin geturðu haft það þannig að gefa bara bæði brjóstin. Vona að gangi svona vel áfram.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. september 2006.